Þetta er vefur Skógræktarinnar. Sú stofnun hefur nú verið sameinuð í Land og skóg. Nýtt veffang er landogskogur.is. Þessi vefur verður aðgengilegur þar til nýr vefur fyrir Land og skóg verður fullgerður.
Þið getið fengið íslenskt jólatré og jafnvel sótt jólatréð sjálf í íslenskan skóg í öllum landshlutum á aðventunni. Skógræktin, skógræktarfélög og fleiri selja íslensk jólatré á aðventunni og sums staðar er fólk boðið velkomið í skógana fyrir jólin til að velja rétta jólatréð. Slík ferð er orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Vert er að benda á viðburðasíðu Skógræktarfélags Íslands sem uppfærð er reglulega með upplýsingum um viðburði á aðventunni.
Hér fjalla Lárus Heiðarsson hjá Skógræktinni og Hörður Guðmundsson hjá Ilmi-Lífkol um lífkolagerð og ávinninginn af nýtingu þeirra í jarðrækt.
Lífkol úr íslenskum grisjunarviði gætu nýst vel til að binda kolefni til langframa í jarðvegi ræktarlanda og um leið auka gæði jarðvegsins og þar með uppskeru. Möguleikar á þessu eru kannaðir í rannsóknarverkefni sem Skógræktin vinnur nú að í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri.
Frumkvæðið að rannsókninni kom frá fyrirtækinu Tandrabrettum á Reyðarfirði sem meðal annars framleiðir vörubretti en hefur einnig verið að hasla sér völl í úrvinnslu úr timbri, meðal annars íslenskum grisjunarviði.
Hugmyndin er sú að kanna hvort nota megi viðarkol í íslenskum landbúnaði til að draga úr þörfinni fyrir innfluttan tilbúinn áburð í jarðrækt. Viðarkol hafa verið notuð í þessu skyni öldum saman. Frumbyggjar Amason-svæðisins í Suður-Ameríku blönduðu saman lífrænum efnum og viðarkolum til að auðga jarðveg sinn og á síðari árum hafa vísindamenn farið að skoða betur hvort ekki mætti fara að dæmi þeirra. Kolað timbur rotnar ekki eins og óbrunninn viður heldur geymist til langframa í jarðveginum en hefur um leið örvandi áhrif á umsetningu næringarefna og raka í jarðveginum. Með því að hita timbur í súrefnislausu umhverfi verða til gös sem safna má saman og nota sem orkugjafa en eftir verða kolefnisrík viðarkol.
Þetta gefur færi á margþættum kolefnisávinningi. Kolefni sem trén bundu með ljóstillífun læsist þarna í formi viðarkola í stað þess að losna út í andrúmsloftið. Í jarðveginum hafa kolin þau áhrif að minni þörf er fyrir innfluttan tilbúinn áburð sem sömuleiðis sparar kolefnislosun sem hlýst af framleiðslu og flutningi áburðarins. Aukinn vöxtur á ræktarlandinu leiðir líka af sér kolefnisbindingu og eftir því sem uppskera er meiri er kolefnisspor ræktunarinnar minna. Til viðbótar er möguleikinn að fá sjálfbæran orkugjafa úr kolagerðinn. Af öllu þessu er ljóst að til mikils er að vinna. Jafnvel er talað um að það gæti verið jákvæð loftslagsaðgerð að greiða bændum styrki fyrir að fella lífkol niður í jarðveg á ræktarlöndum sínum til að binda kolefni til langframa.
Áhrif skógræktar og skóga á losun gróðurhúsaloftegunda eru nú flestum kunn og á hverju ári eru þau staðfest í Landsskýrslu Íslands um losun gróðurhúsloftegunda frá Íslandi sem rekja má til starfsemi á vegum manna. Skóglendi var metið með nettóbindingu upp á 509 þús. tonn CO2-ígildi árið 2021 sem er um 82% af losun vegna landbúnaðar (620 þús. tonn) sama ár.
Í erindi mínu fer ég yfir stöðu mála varðandi skóglendi og kjarrlendi og hvernig skógarnir sem bera uppi nettóbindinguna eru uppbyggðir.
Aukið vægi er nú lagt í að reyna að átta sig á hvernig ýmsar aðgerðir til að stemma stigu við loftlagsbreytingum virka. Það er gert með því að spá fyrir um hvernig og hvenær þær hafa áhrif og líka eru könnuð áhrif mismunandi sviðsmynda. Annað hvert ár skilar Ísland skýrslu til ESB um aðgerðir í nútíð og framtíð, spá til 2050 um hvernig og hvenær þessar aðgerðir munu minnka losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig þær spár samræmast markmiðum stjórnvalda og skuldbindingum landsins á alþjóðavísu. Slík skil fóru fram núna 15. mars síðastliðinn
Sviðsmyndir nýrrar spár fyrir skóga voru tvær. Önnur þeirra tók mið af núverandi aðgerðum sem ákveðnar voru í aðgerðaráætlun stjórnvalda 2020 og sett fram í fjármálaáætlun þeirra í kjölfarið (e. with expected measures sk.st. WEM). Í stuttu máli er þar gert ráð fyrir að á árinu 2025 verði nýskógrækt á landinu orðin 2.500 hektarar á ári og sú aukning látin halda sér út spátímann til ársins 2050. Hin sviðsmyndin gerði ráð fyrir að aukin umsvif í nýskógrækt, aðallega vegna skógræktarframkvæmda sem kostuð eru af einkaaðilum, bæti við hina sviðsmyndina 2.500 hekturum frá og með árinu 2028 þannig að samtals munu þessar aðgerðir leiða af sér nýskógrækt upp á 5.000 ha á ári fram til 2050 (e. with additional measures skst. WAM). Sviðsmynd án aðgerða gerði ráð fyrir að nýskógrækt yrði að jafnaði 1.100 ha á ári.
Þegar þessar sviðsmyndir eru bornar saman við sviðsmynd án aðgerða (e. without measures skst. WOM) þá verður nettóbinding án aðgerða 584 kílótonn árið 2050 en með aðgerðum (WEM) 883 kílótonn (51% auking) og með auknum aðgerðum (WAM) 1.265 kílótonn CO2-ígilda (116% aukning). Hlutfallsleg aukning í bindingu frá því sem hún var áætluð 2021 verður meiri eða 73% aukning miðað við núverandi aðgerðir og 149% aukning miðað við auknar aðgerðir.
Flatarmál ræktaðra skóga var áætlað 47 kha 2021 og eykst í 79 kha árið 2050 ef engar aðgerðir verða (WOM) en í 119 kha með núverandi aðgerðum (WEM) og í 179 kha með auknum aðgerðum (WAM). Gert var ráð fyrir að þróun flatarmáls hjá náttúrulegum birkiskógum og -kjarri yrði sú sama og á milli 1989 og 2012 sem var árleg aukning upp á 563 ha. Þannig var gert ráð fyrir að flatarmál náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs ykist úr 156 kha 2021 í 172 kha 2050 óháð sviðsmyndum. Skógar og kjarr á Íslandi mundu þá þekja frá 2,5%-3,5% af landinu, allt eftir því hvaða sviðsmynd myndi raungerast. Samsetning þessa skóglendis yrði 172 kha (59%) náttúrulegur birkiskógur, 39 kha (13%) ræktaður birkiskógur og 80 kha (28%) ræktaður skógur með erlendum trjátegundum, sé tekið mið af sviðsmynd núverandi aðgerða. Miðað við núverandi aðgerðir var aukning skóglendis áætluð 88 kha og þar af voru skógar ræktaðir með erlendum trjátegundum 46 kha. Landþörf undir þetta aukna skóglendi er einungis 4% af tiltæku skógræktarlandi undir 400 m h.y.s. sem samkvæmt mati sérfræðinga hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er 52% (2.192 kha) lands undir 400 m h.y.s. Landþörf fyrir ræktun erlendra trjátegunda yrði því 2% af tiltæku landi.
Varanleg skógareyðing var metin út frá meðaltalseyðingu síðustu fimm ára (2017-2021). Varanleg skógar- og kjarreyðing var einungis metin 6,4 ha á ári. Hún hefur nánast aðeins verið vegna mannvirkjagerðar (s.s. vegagerðar).
Í spám um loftslagsbreytingar er gert ráð fyrir meiri hlýnun að vetri en sumri. Fyrir skógrækt á Íslandi má segja að almennt dragi úr hættu á frostskemmdum að hausti en að líkur á ótímabærri lifnun á útmánuðum með mögulegum frostskemmdum að vori muni aukast. Hitasumma til trjávaxtar mun hækka og gefa aukinn trjávöxt. Loftslag, og þá sérstaklega vetrarhiti, á okkar helstu skógræktarsvæðum í dag mun líklega þróast í átt að hitafari sem við þekkjum á SA-landi. Því væri æskilegt að prófa erfðaefni skógræktar í auknum mæli á því svæði til að meta hæfni þess gangvart hlýnandi loftslagi framtíðarinnar. Til að mæta spáðri hlýnun þarf að leita í efnivið sem er aðlagaður loftslagi sunnar eða nær sjó. Fyrir íslenska birkið er rökrétt að kvæmi sem eru aðlöguð mildu loftslagi SA-lands henti betur framtíðarloftslagi Íslands almennt samanborið við innlandskvæmi frá öðrum landshlutum og er það í samræmi við núverandi reynslu. Ísland nýtir nú þegar kvæmi stafafuru og sitkagrenis sem eru frá norðurhluta útbreiðslusvæðis þessara tegunda. Því er mikið svigrúm til að færa notkunina á næstu áratugum yfir á suðlægari kvæmi samhliða hækkandi loftslagshita. Bæði sitkagreni og stafafura mynda fræ reglubundið utandyra á Íslandi sem gerir öflun á réttu fræi á hverjum tíma mögulega. Erfiðara verður að þróa efnivið af alaskaösp og rússalerki sem getur mætt aukinni tíðni vetrarumhleypinga án frostskemmda. Velja þarf klóna af ösp sem lifna fremur seint að vori og viðhalda erfðabreytileika í klónavali til skógræktar til að draga úr ræktunaráhættu. Reglubundið á næstu áratugum þarf að víxla góðum klónum til að búa til nýja einstaklinga sem þola betur loftslagsbreytingar, samhliða því sem þessar breytingar raungerast. Í lerkinu þarf að færa notkunina strax frá rússalerki yfir í tegundablendinginn Hrym og mögulega yfir í evrópulerki á næstu áratugum. Ekki er mögulegt að útvega lerkifræ af Hrymi með frægarði utandyra og mjög ótryggt er með lerkifræ almennt frá útlöndum. Brýnasta einstaka aðgerðin við aðlögun erfðaefnis skógræktar að loftslagsbreytingum er að auka framleiðslu á Hrymsfræi innandyra enda annar núverandi framleiðsla aðeins litlum hluta eftirspurnar.
ef árleg gróðursetning á Íslandi fjórfaldast og fer upp í í 12,4 milljónir trjáplantna 2023 verður binding íslensku skóganna um ein milljón tonna á ári um miðja öldina?
SKÓGRÆKTIN