Áhrif skógræktar og skóga á losun gróðurhúsaloftegunda eru nú flestum kunn og á hverju ári eru þau staðfest í Landsskýrslu Íslands um losun gróðurhúsloftegunda frá Íslandi sem rekja má til starfsemi á vegum manna. Skóglendi var metið með nettóbindingu upp á 509 þús. tonn CO2-ígildi árið 2021 sem er um 82% af losun vegna landbúnaðar (620 þús. tonn) sama ár.

Í erindi mínu fer ég yfir stöðu mála varðandi skóglendi og kjarrlendi og hvernig skógarnir sem bera uppi nettóbindinguna eru uppbyggðir.

Aukið vægi er nú lagt í að reyna að átta sig á hvernig ýmsar aðgerðir til að stemma stigu við loftlagsbreytingum virka. Það er gert með því að spá fyrir um hvernig og hvenær þær hafa áhrif og líka eru könnuð áhrif mismunandi sviðsmynda. Annað hvert ár skilar Ísland skýrslu til ESB um aðgerðir í nútíð og framtíð, spá til 2050 um hvernig og hvenær þessar aðgerðir munu minnka losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig þær spár samræmast markmiðum stjórnvalda og skuldbindingum landsins á alþjóðavísu. Slík skil fóru fram núna 15. mars síðastliðinn

Sviðsmyndir nýrrar spár fyrir skóga voru tvær. Önnur þeirra tók mið af núverandi aðgerðum sem ákveðnar voru í aðgerðaráætlun stjórnvalda 2020 og sett fram í fjármálaáætlun þeirra í kjölfarið (e. with expected measures sk.st. WEM). Í stuttu máli er þar gert ráð fyrir að á árinu 2025 verði nýskógrækt á landinu orðin 2.500 hektarar á ári og sú aukning látin halda sér út spátímann til ársins 2050. Hin sviðsmyndin gerði ráð fyrir að aukin umsvif í nýskógrækt, aðallega vegna skógræktarframkvæmda sem kostuð eru af einkaaðilum, bæti við hina sviðsmyndina 2.500 hekturum frá og með árinu 2028 þannig að samtals munu þessar aðgerðir leiða af sér nýskógrækt upp á 5.000 ha á ári fram til 2050 (e. with additional measures skst. WAM). Sviðsmynd án aðgerða gerði ráð fyrir að nýskógrækt yrði að jafnaði 1.100 ha á ári.

Þegar þessar sviðsmyndir eru bornar saman við sviðsmynd án aðgerða (e. without measures skst. WOM) þá verður nettóbinding án aðgerða 584 kílótonn árið 2050 en með aðgerðum (WEM) 883 kílótonn (51% auking) og með auknum aðgerðum (WAM) 1.265 kílótonn CO2-ígilda (116% aukning). Hlutfallsleg aukning í bindingu frá því sem hún var áætluð 2021 verður meiri eða 73% aukning miðað við núverandi aðgerðir og 149% aukning miðað við auknar aðgerðir.

Flatarmál ræktaðra skóga var áætlað 47 kha 2021 og eykst í 79 kha árið 2050 ef engar aðgerðir verða (WOM) en í 119 kha með núverandi aðgerðum (WEM) og í 179 kha með auknum aðgerðum (WAM). Gert var ráð fyrir að þróun flatarmáls hjá náttúrulegum birkiskógum og -kjarri yrði sú sama og á milli 1989 og 2012 sem var árleg aukning upp á 563 ha. Þannig var gert ráð fyrir að flatarmál náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs ykist úr 156 kha 2021 í 172 kha 2050 óháð sviðsmyndum. Skógar og kjarr á Íslandi mundu þá þekja frá 2,5%-3,5% af landinu, allt eftir því hvaða sviðsmynd myndi raungerast. Samsetning þessa skóglendis yrði 172 kha (59%) náttúrulegur birkiskógur, 39 kha (13%) ræktaður birkiskógur og 80 kha (28%) ræktaður skógur með erlendum trjátegundum, sé tekið mið af sviðsmynd núverandi aðgerða. Miðað við núverandi aðgerðir var aukning skóglendis áætluð 88 kha og þar af voru skógar ræktaðir með erlendum trjátegundum 46 kha. Landþörf undir þetta aukna skóglendi er einungis 4% af tiltæku skógræktarlandi undir 400 m h.y.s. sem samkvæmt mati sérfræðinga hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er 52% (2.192 kha) lands undir 400 m h.y.s. Landþörf fyrir ræktun erlendra trjátegunda yrði því 2% af tiltæku landi.

Varanleg skógareyðing var metin út frá meðaltalseyðingu síðustu fimm ára (2017-2021). Varanleg skógar- og kjarreyðing var einungis metin 6,4 ha á ári. Hún hefur nánast aðeins verið vegna mannvirkjagerðar (s.s. vegagerðar).

Meira