Aðlögunarhæfni lítilla og afskekktra samfélaga
að náttúruvá á tímum loftslagsbreytinga

Jóhanna Gísladóttir, umhverfisstjóri Landbúnaðarháskóla Íslands

Kynnt verður verkefnið CliCNord (Climate Change Resilience in Small Communities in the Nordic Countries) sem fjallar um hvernig hægt sé að auka getu lítilla samfélaga til að mæta áhrifum loftslagsbreytinga. Markmið verkefnisins eru að varpa ljósi á hversu vel í stakk búin lítil samfélög séu til að takast á við áskoranir vegna náttúruvár, hvaða skilning samfélög hafa á eigin aðstæðum, hvernig hæfni og úrræði íbúa getur hjálpað til við að byggja upp getu samfélaga og við hvers konar aðstæður samfélögin þurfa aðstoð. Verkefnið gengur út frá því að náttúruvá muni hafa aukin áhrif vegna loftslagsbreytinga og tekur fyrir mismunandi náttúruvár á Norðurlöndunum, svo sem ofanflóð, storma, gróðurelda, úrkomuákefð og flóð. Á Íslandi var sjónum beint að ofanflóðahættu á Vestfjörðum og tilviksrannsókn var beitt þar sem íbúar Patreksfjarðar og Flateyrar tóku þátt í rýnihópum og einstaklingsviðtölum. Þá voru einnig tekin viðtöl við sérfræðinga í ytra viðbragðskerfi landsins.

Nánar