Lat. Heringocrania unimaculella

Lífsferill

Birkikemba (Heringocrania unimaculella) er tiltölulega nýtt meindýr hérlendis. Hún er orðin útbreidd um efri hluta Ölfuss, er orðin skæð á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en hefur verið að breiðast vestur og norður um land. Birkikemba er fiðrildategund og er það lirfan sem veldur skaða. Kvenfiðrildin verpa eggjunum undir yfirhúð laufblaða snemma sumars. Þar klekjast þau út í blaðholdinu og ljósleitar eða litlausar lirfurnar nærast á því innan frá. Fullvaxin lirfa púpar sig í jörðu og bíður næsta vors. Birkikemba herjar á birki og skyldar tegundir fyrri hluta sumars en annar skaðvaldur sem einnig hreiðrar um sig innan í laufblöðum birkis með svipuðum einkennum er farinn að breiðast út hérlendis. Það er birkiþéla, óskyld tegund þótt hún nærist með svipuðum hætti á laufblöðum. Munurinn er þó sá að birkiþéla leggst á birkið seinni hluta sumars og þannig er yfirleitt hægt að þekkja sundur hvor tegundin er á ferðinni. Einnig má skoða drit lirfanna með því að bera laufblöð upp að ljósinu. Drit birkikembu er þráðlaga en drit birkiþélu örsmáar kúlur. Lirfur birkikembu eru nær litlausar en birkiþélu dökkleitar.

Tjón

Talsverð lýti geta verið að skemmdum og ekki er ólíklegt að birkikemba hafi áhrif á vöxt birkisins, ekki síst ef báðar tegundirnar herja á sama tréð sama sumarið, birkikemba fyrri hluta sumars og birkiþéla síðsumars.

Varnir gegn skaðvaldi

Þar sem lirfan lifir inni í laufinu er erfitt að beita vörnum, líkt og skordýraeitri, þar sem efnið þarf að komast í snertingu við lirfuna. Verið er að kanna möguleikann á innflutningi á náttúrulegum óvini birkikembunnar.