Hér eru tíundaðar reglur sem gilda um skráningu ferðatíma í ferðalögum starfsmanna Skógræktarinnar til útlanda. Þessar reglur hafa verið staðfestar af hálfu Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og er starfsfólk Skógræktarinnar beðið að fara eftir þeim. 

Leiðbeiningar frá Kjara- og mannauðsýslunni

„Um þetta er fjallað í gr. 5.5. í flestum kjarasamningum. Orðalag greinarinnar er með tvenns konar hætti í hinum ýmsu samningum en merkingin hin sama:

a) Í langflestum samningum er greinin orðuð svo:

5.5 Ferðatími erlendis 5.5.1

Þegar starfsmaður fer utan að frumkvæði vinnuveitenda og á vegum hans telst sá tími ekki til virks vinnutíma. Greiðslur vegna slíkra ferða skulu vera með eftirfarandi hætti:

Sé brottför flugs á virkum degi fyrir kl. 10.00 og heimkoma eftir kl. 15.00, skal starfsmaður fá greiðslu sem nemur þremur álagsstundum á 33% álagi vegna þessa óhagræðis.

Á almennum og sérstökum frídögum skal samsvarandi greiðsla nema sex álagsstundum á 33% álagi. Heimilt er að semja um frítíma í stað greiðslu ferðatíma sbr. grein 2.5.2.

b) ... en hjá örfáum félögum er orðalagið þetta:

5.5 Ferðatími erlendis

5.5.1 Þegar starfsmaður fer utan að frumkvæði vinnuveitenda og á vegum hans skulu greiðslur vegna slíks óhagræðis vera með eftirfarandi hætti:

Sé brottför flugs á virkum degi fyrir kl. 10.00 og/eða heimkoma eftir kl. 15.00, skal starfsmaður fá greiðslu sem nemur þremur álagsstundum á 33,33% álagi fyrir hvort tilvik.

Á almennum og sérstökum frídögum skal samsvarandi greiðsla nema sex álagsstundum á 33,33% álagi. Heimilt er að semja um frítíma í stað greiðslu ferðatíma sbr. grein 2.5.2.

Greinin fjallar um þau óþægindi sem starfsmaður verður fyrir vegna flugferða til og frá landinu þegar hann ýmist þarf að vakna fyrir allar aldir á morgnana eða kemur seint heim úr flugi. Ekki er þó um tímamælingu að ræða, allir fá jafna greiðslu t.d. hvort sem er komið úr flugferð kl. 16 eða kl. 22. Greinin tekur ekki til þess tíma sem dvalist er erlendis.

Nóg er að uppfylla annað skilyrðið, sbr. orðalag b) hér af framan. Þrjár vaktaálagseiningar skv. gr. 1.6.1 greiðast fyrir hvert tilvik á virkum dögum og sex einingar fyrir hvert tilvik á almennum og sérstökum frídögum skv. gr. 2.1.4.1-2. T.d. ef starfsmaður fer í flug kl. 8 á laugardagsmorgni og lendir síðan aftur heima kl. 16 á þriðjudegi, fær hann 6 vaktaálagseiningar fyrir fyrra tilvikið og 3 einingar fyrir það síðara. Til nánari skýringar þá er með orðalaginu álagsstund á 33,33% álagi, í  framangreindri gr. 5.5.1, átt við einingarverð 33,33% vaktaálags samkvæmt gr. 1.6.1. Séu þessar álagsstundir teknar út í fríi, samanber 4. mgr., samsvara 3 álagsstundir einni dagvinnustund.“

Nánari skýringar

  • Kjarasamningarnir gera sem sagt ráð fyrir að á ferðalögum erlendis séu greiddar 3 (á virkum dögum) eða 6 (á helgidögum) vaktaálagsstundir miðað við 33% álag í upphafi og lok hverrar ferðar sé það utan dagvinnutíma. Vaktaálasstund er 1,33 x dagvinnustund, þ.e. ekki það sama og yfirvinnustund sem er ca 1,8 x dagvinnustund
  • Skrá skal aukagreiðslur vegna ferðalaga erlendis á þennan hátt en ekki með því að skrá yfirvinnustundir. Þetta skráist sem „aukatímar“ í Vinnustund og möguleikarnir koma þar fram í fellilista
  • Ekki er greitt sérstaklega fyrir ferðir til og frá flugvelli. Það á því ekki að skrá þær sérstaklega. Þetta gildir ekki um flugferðir innanlands. Ekki er greitt fyrir þær sérstaklega, hvorki með álagsstundum né yfirvinnustundum en sú regla að skrá innanlandsferðir utan vinnutíma sem ógreidda yfirvinnu sem tekin er út í fríi stenst þar til annað er ákveðið.