Á árunum 1993-1998 voru haldnir skógardagar í þjóðskógunum með stuðningi Skeljungs. Fyrirtækið veitti Skógræktinni fjármagn til að opna þjóðskógana betur og gera þá aðgengilegri fyrir almenning til útivistar. Á skógardögunum var boðið upp á fjölbreytta kynningar- og fræðsludagskrá í samstarfi við ýmsa, m.a. handverksfólk og listamenn, auk þess sem skógartengd fræðsla var fyrirferðarmikil á skógardögunum.

Meðal þeirra sem tóku þátt í þeim voru trérennismiðir sem renndu t.d. skálar úr nýfelldum ferskum viði, beint úr skóginum. Þeir sem fylgdust með þessari vinnu furðuðu sig á því að hægt væri að vinna viðinn óunninn. Viðbrögðin urðu til þess að farið var að íhuga hvort ekki þyrfti að bjóða almenningi upp á fræðslu um ferskar viðarnytjar.

Guðmundur Magnússon, smiður og smíðakennari í Flúðaskóla, var einn þeirra sem tóku þátt í rennismíðinni á skógardögunum. Hann kom til landsins árið 1998 eftir námsdvöl í Svíþjóð og Danmörku þar sem hann kynnti sér ferskar viðarnytjar. Í Svíþjóð kynntist hann gamalli tálgutækni sem hafði gengið á milli kynslóða og var almennt notuð þar í tálguvinnu. Í Danmörku kynnist Guðmundur smíðaaðferð sem kölluð er „þurrt í blautt” þar sem notað er bæði ferskt og þurrt efni við að setja saman húsgögn o.fl.

Guðmundur og Ólafur Oddsson, sem þá vann sem kynningarfulltrúi Skógræktarinnar, settu ferskar viðarnytjar í fræðslufarveg með námskeiðunum Lesið í skóginn - tálgað í tré. Þau námskeið hafa verið haldin fyrir almenning og í skólastarfi frá því í janúar 1999 en þá hafði verið unnið að þessu verkefni í Flúðaskóla um tíma. Verkefnið var kallað Skógarins gagn og gaman og var tekið upp á myndband af Þorsteini Jónssyni, kvikmyndagerðarmanni. Nemendur lærðu sænku tálgutæknina, sóttu efni í grenndarskóg skólans sem ræktaður var af  Kvenfélaginu á Flúðum, lærðu að grisja og hirða skóginn og farið var í skógarferðir, bæði að Tumastöðum í Fljótshlíð og í Haukadalsskóg. Þar kynntust nemendur ýmsum hliðum skógræktar, hituðu kakó yfir eldi og bökuðu brauð. Það má því segja að Flúðaskóli hafi verið fyrsti skóli á Íslandi í að kenna ferskar viðarnytjar og tálgutækni.

Þetta starf varð síðan til þess að haldin voru Lesið í skóginn námskeið fyrir smíðakennara og náttúrfræðikennara í ferskum viðarnytjum og tálgutækni á árum 1999 og 2000 af Skógræktinni í samvinnu við Endurmenntunarstofnun KHÍ. Námskeiðin voru vel sótt og líta má á þau námskeið sem upphaf að skólaþróunarverkefninu Lesið í skóginn með skólum þar sem þeir sem sóttu þau urðu brautryðjendur í skólum á sviði skógartengds útináms og ferskra viðarnytja. Bjarni Þór Kristjánsson, smíðakennari, stóð að undirbúningi og framkvæmd námskeiðanna auk Guðmundar og Ólafs.

Tilraun til stofnunar viðarmiðlunar Skógræktarinnar árið 1995, fyrsta íslenska viðarsýningin sem haldin var í Perlunni haustið 1996 og stuðningur BYKO við grisjun hjá Skógræktinni, kaup þeirra á flettisög og stuðningur við útgáfu kennslubókarinnar Skógurinn og nýting hans sem gefin var út af Námsgagnastofnun í samvinnu við KHÍ, studdi allt mjög vel við undirbúning að stofnun verkefnisins Lesið í skóginn. Það var formlega var sett á laggirnar árið 2001 í samvinnu við Fræðsluskrifstofu og Garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar, Kennaraháskóla Íslands, Kennarasamband Íslands og Skógræktarfélag Reykjavíkur.

 

Hugmyndafræði og markmikið

Á árunum 2000 til 2003 var unnið að því að móta skólaþróunarverkefnið Lesið í skóginn með skólum í gagnvirku samstarfi skógræktaraðila og skólayfirvalda.

Frá upphafi hefur verið lögð á það áhersla gagnvirkt þróunarsamstarf þar sem ólíkir fagaðilar vinna sameiginlega að því að finna leiðir til að efla fræðslu um skóg- og skógarnytjar í skólastarfi. Á þann hátt var talið að finna mætti árangursríkar og varanlegar leiðir til auka tengsl skólasamfélags við skóg- og skógarnytjar á öllum skólastigum, í tengslum við sem flest fög. Hugmyndin á bak við það að tengja skógarfræðsluna við sem flest fög beinist að því að gera skóginn að vettvangi fjölbreyttrar fræðslu sem gerði hana bæði gagnlegri og skemmtilegri fyrir starfsfólk og nemendur. Á þessum tíma fór fram umræða innan skólasamfélagsins víða erlendis sem sneri að auknu gildi útináms og mikilvægi þess að fræðsla um náttúruna færi fram utandyra. Auk þess var talið mikilvægt að tengja mann og nátturu meira saman og um leið að auka fjölbreytni í skólastarfi til að koma betur á móts við ólíkar þarfir nemenda.

Hlutverk fagfólks í garðyrkju og skógrækt var að miðla reynslu og þekkingu til skólasamfélagsins sem yrði að raunhæfum og gagnlegum verkefnum í skólastarfi. Hugsunin var að þekkingin byggðist upp meðal kennaranna sjálfra sem gætu með tímanum orðið sjálfbærir í fræðslustarfi sínu. Frá upphafi var því lögð áhersla á að stuðningur við skólasamfélagið fælist í því að vinna með kennurum en ekki fyrir. Ekki var sett upp fræðsludagskrá fyrir stóra hópa þar sem kennarar komu með nemendur og tóku þátt í dagskrá sem aðilar utan skólans settu upp og stýrðu.

Frá upphafi hefur Lesið í skóginn verið kallað þróunarverkefni og verður áfram þar sem ný verkefni verða til og áherslur breytast í takt við tíðaranda og af fenginni reynslu.

Helstu markmið

  • Efla vitund nemenda á skógarvistfræði, skógarnytjum og skapandi verkefnum í skógi.
  • Styrkja þverfaglega kennslu um íslenska skóga sem tekur mið af sérstöðu skólanna og  ólíkri aðstöðu þeirra til útinám.
  • Auka og skipuleggja notkun grunnskóla Reykjavíkur á grenndarskógum sínum.
  • Þróa grenndarskógakort og auka tengsl skólanna við landfræðilegt grenndarsamfélag.

Helstu verkefni

  • Halda fundi og kynningar um verkefnið, veita faglega ráðgjöf til skóla og stuðla að jafningjafræðslu í samstarfi skólanna
  • Skipuleggja námskeið fyrir starfsfólk skólanna og útvega efni til tilraunakennslu.
  • Auðvelda aðgengi að grenndarskógum og uppbyggingu á aðstöðu til útikennslu.
  • Fá aðgang að skógarsvæðum í umsjón Skógræktarfélags Reykjavíkur sem veitir leiðsögn
  • Meta árangur verkefnisins og miðla reynslu.

 

Forysta verkefnisins og þátttakendur

Verkefnisstjóri Lesið í skóginn

Ólafur Oddsson, uppeldisráðgjafi og fræðslustjóri Skógræktarinnar
Sími: 863-0380
Netfang: oli@skogur.is
Aðsetur: Reykjavík.

Skógræktin hefur frá upphafi stjórnað og rekið verkefnið Lesið í skóginn.


Helstu samstarfsaðilar Lesið í skóginn eru: