Inngangur

Afstaða Skógræktarinnar um grisjun er sett hér fram. Hún er byggð á rannsóknum, reynslu og þekkingu, en jafnframt á þörfum samfélagsins fyrir virkni skóga við að binda kolefni úr andrúmsloftinu og stöðu þeirra sem kolefnisforða. Þetta nýja og mikilvæga hlutverk skóga, að draga koltvísýring úr andrúmsloftinu, kallar á endurskoðun markmiða og aðferða við grisjun. Tilgangur þessa afstöðuplaggs er að starfsfólk Skógræktarinnar hafi skýra stefnu til viðmiðunar þegar verið er að skipuleggja skógrækt og veita ráðgjöf.

Grunnur

Allir skógar grisja sig sjálfir með tímanum. Jákvæðar hliðar þess að miða við sjálfgrisjun eru að kolefnisforði helst hár, myndun grófra kvista er lágmörkuð, viðargæði geta orðið mikil og enginn kostnaður fellur til vegna grisjunar. Neikvæðu hliðarnar eru aftur á móti þær að þvermálsvöxtur flestra trjánna er hægur sem þýðir að lotan er löng þar til nothæft timbur verður til, lengi er illfært um þéttan skóginn og ekkert val fer fram á trjám m.t.t. gæða.

Við rétta grisjun færist vöxtur margra misgóðra trjáa yfir á færri og að jafnaði betri (beinvaxnari) tré, þvermálsvöxtur eftirstandandi trjáa eykst og lotan styttist. Grisjunin kostar eitthvað og því þarf styttri lota og meiri gæði að vega á móti þeim kostnaði. Mjög dýr grisjun er ekki líkleg til að skila sér í tilsvarandi auknum verðmætum viðarafurða. Einnig má grisjunin ekki leiða til þess að trén verði um of grófkvistótt, þau falli í næsta stormi eða að skógurinn missi svo stóran hluta kolefnisforðans að hann nái honum ekki aftur innan hæfilegs tíma.

Sjálfgrisjun eða virk grisjun á misjafnlega við um skóga eftir markmiðum, tegundum, vexti og almennum gæðum trjánna. Oft eru engin markmið sett um viðarframleiðslu eða útivist. Það getur t.d. átt við um endurheimt birkiskóga eða þar sem jarðvegsvernd er meginmarkmiðið, ásamt kolefnisbindingu. Þar er oftast óþarfi að hugsa um grisjun. Í nytjaskógrækt er þó full ástæða til að huga að því hvort og hvernig grisjun getur stuðlað að settum markmiðum um vöxt og viðargæði. Í þeim efnum er mikilvægt að huga að heildarmyndinni en ekki aðeins einum þætti, eins og t.d. kostnaði eða kvistamyndun. Afstaða þessi á því einkum við um nytjaskógrækt, sem héðan í frá þarf einnig að vera til CO2-bindingar og viðhalds kolefnisforða.

Markmið með grisjun skóga eru að auka vöxt og gæði eftirstandandi trjáa til viðarframleiðslu, jafnframt því að huga að áhrifum grisjunar á kolefnisforða og kolefnisbindingu skógarins. Einnig þarf að huga að því að skógar eru oft viðkvæmir fyrir stormfalli og snjóbroti eftir grisjun, einkum þeir sem vaxið hafa upp án snemmgrisjunar. Afar breytilegt er þó hvað á við, allt eftir staðsetningu skóganna, hvaða trjátegundir er um að ræða, þéttleika gróðursetningar o.fl. Með þetta í huga mælir Skógræktin með eftirfarandi grisjun/umhirðu skóga:

Snemmgrisjun

Þétta ungskóga er gott að snemmgrisja þegar yfirhæð er 3-6 m (sjá leiðbeinandi viðmið eftir tegundum neðar). Á þessu hæðarbili eru trén yfirleitt í góðum vexti og fljót að vinna upp kolefnistap vegna grisjunar. Það sem stjórnar tímasetningunni er þéttleiki skógarins og frjósemi landsins sem hann vex á. Þéttan, hraðvaxta skóg skal grisja snemma (nær 3 m hæð). Gisnari og hægvaxnari skóg má bíða lengur með (nær 6 m hæð). Skilja á felldu trén eftir dreifð í skógarbotninum því stofnar, lim og rætur rotna og breytast í mold. Að safna saman afskurði og bolum í hrúgur skapar meiri eldhættu, dregur mikið úr niðurbrotshraða og lengir til muna sýnileika dauðs viðar í skógunum. Snemmgrisjun er kostnaðarsöm framkvæmd og því þarf alltaf að vega og meta hverju sinni hvort verðmæti skógarins aukast sem nemur þeim kostnaði.

Náist ekki að snemmgrisja

Í umfjöllun hér á eftir merkir „væg“ grisjun að innan við helmingur trjáa er felldur en „hörð“ grisjun að meira en helmingur sé felldur. Náist ekki að snemmgrisja er misjafnt eftir tegundum hvert besta framhaldið sé:

  • Alaskaösp má grisja fram yfir 40 ára aldur án þess endilega að valda varanlegu tapi kolefnisforða eða teljandi stormfallshættu. Eftir fertugt hægist hins vegar á vexti. Grisjun eftir það þýðir kolefnistap. Því ætti ekki að grisja hart í svo gömlum asparskógi, heldur huga að loka fellingu og endurnýjun. Auk grisjunar er gott að uppkvista gæðatré tímanlega (áður en greinar verða grófar).
  • Sitkagreni þolir að standa ógrisjað út lotuna. Sjálfgrisjun leiðir oftast til þess að allmörg gæðatré ná góðum vexti. Stormfallshættan eykst með hæðinni og því er orðið vandasamt að grisja í þéttum grenireitum sem komnir eru yfir 12 m hæð öðruvísi en mjög vægt – og það er dýrt. Betra er þá að grisja ekki. Sitkagreni heldur vaxtargetu lengi. Í stað hefðbundinnar grisjunar (taka minni og lakari tré) getur verið gott að fella stóru trén og leyfa þeim minni að vaxa lengur. Það er í raun lokafelling (stakfelling) frekar en grisjun og með því væri verið að innleiða síþekjumeðferð skógarins og gera hann misaldra, sem er e.t.v. góð leið til að viðhalda kolefnisforða skógarins um leið og sala stærri trjánna borgar skógarhöggið.
  • Lerki má grisja þegar það hefur náð 6 m hæð, en aðeins vægt, og ekki ætti að grisja það eftir 40 ára aldur til að forðast varanlegt kolefnistap. Rússalerki missir æskuþrótt sinn á aldrinum 25-30 ára og er þá oft um 10 m hátt. Eftir það þýðir hörð grisjun að skógurinn missir bindigetu sína varanlega, því hann nær aldrei upp jafngóðum vexti og þegar skógurinn er yngri. Snemmgrisjun, á aldrinum 15-20 ára, er hvað mikilvægust fyrir lerki og svo ætti að grisja aftur þegar skógurinn er kominn um eða skammt yfir þrítugt, og þá vægt.
  • Snemmgrisjun í þéttum ungskógi er næstum jafnnauðsynleg fyrir stafafuru og lerki. Best er að sleppa grisjun stafafuru ef ekki næst að snemmgrisja vegna mikillar hættu á stormfalli og snjóbroti. Þetta á við um alla furu eldri en frá ca. 1995. Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort fura gróðursett eftir það, og var yfirleitt aðeins eitt sumar í bökkunum, reynist stöðugri. Í tiltölulega gisnum furuskógum er gott að uppkvista gæðatré tímanlega (áður en greinar verða grófar).
  • Hægvaxta skóga, t.d. birki, rauðgreni, hvítgreni eða blágreni ætti aldrei að grisja hart því þeir eru lengi að ná aftur upp kolefnisbindingunni. Hægvaxta lindifuru og bergfuru ætti að grisja hart og oft svo öll trén fái nánast að vaxa frjálst til að geta varist furugremi.
  • Grisjun skóga sem eru mikið skemmdir (t.d. snjóbrotssvæði) eða innihalda fá gæðatré skilar ekki verðmætum (borgar sig ekki). Hreinsun/grisjun slíkra skóga er því eingöngu í þágu útivistar eða útlits. Oftast er slík grisjun/hreinsun ekki réttlætanleg í ljósi minnkunar á kolefnisforða.

Forsendur snemmgrisjunar

Lerki og stafafura

  1. Að samkeppni á milli trjáa um pláss sé byrjuð. (Neðstu greinar trjáa farnar að drepast.)
  2. Að þéttleiki skógarins sé meiri en 2.000 tré á hektara.
  3. Að yfirhæð sé ekki meiri en 6 metrar.
  4. Að fjöldi gæðatrjáa sé a.m.k. 200/ha, og að dreifing þeirra sé nokkuð jöfn um svæðið.
  5. Grisja niður í 1700 tré/ha ± 200 eftir gæðum skóga.
  6. Tré innan við 1,3 m hæð eða hærri tré innan við 5 cm að þvermáli í brjósthæð (ÞBH) eru ekki talin með í mælingum og ekki felld við grisjun nema þau séu fyrir.

Sitkagreni (og bastarður)

  1. Að samkeppni á milli trjáa um pláss sé byrjuð (neðstu greinar trjáa farnar að drepast).
  2. Að þéttleiki skógarins sé meiri en 2.500 tré á hektara.
  3. Að yfirhæð sé ekki meiri en 8 metrar.
  4. Að fjöldi gæðatrjáa á ha sé a.m.k. 500/ha, og að dreifing þeirra sé nokkuð jöfn um svæðið.
  5. Grisja niður í 2.000 tré/ha ± 200 eftir gæðum skóga.
  6. Tré innan við 1,3 m hæð eða hærri tré innan við 5 cm í ÞBH eru ekki talin með í mælingum og ekki felld við grisjun.

Alaskaösp

  1. Að samkeppni á milli trjáa um pláss sé byrjuð (neðstu greinar trjáa farnar að drepast).
  2. Að þéttleiki skógarins sé meiri en 2.500 tré á hektara.
  3. Að yfirhæð sé ekki meiri en 8 metrar.
  4. Að fjöldi gæðatrjáa á ha sé a.m.k. 500/ha, og að dreifing þeirra sé nokkuð jöfn um svæðið.
  5. Grisja niður í 1.500 tré/ha ± 200 eftir gæðum skóga.
  6. Tré innan við 1,3 m hæð eða hærri tré innan við 5 cm í ÞBH eru ekki talin með í mælingum og ekki felld við grisjun.

Birki og aðrar hægvaxta tegundir

  1. Að samkeppni á milli trjáa um pláss sé byrjuð (neðstu greinar trjáa farnar að drepast).
  2. Að þéttleiki skógarins sé meiri en 3.000 tré á hektara.
  3. Að yfirhæð sé ekki meiri en 6 metrar.
  4. Að fjöldi gæðatrjáa á ha sé a.m.k. 500/ha, og að dreifing þeirra sé nokkuð jöfn um svæðið.
  5. Grisja niður í 2.000 tré/ha ± 200 eftir gæðum skóga.
  6. Tré innan við 1,3 m hæð eða hærri tré innan við 5 cm í ÞBH eru ekki talin með í mælingum og ekki felld við grisjun.