Talinn stærsti skógur landsins með fjölbreyttu útivistarsvæði, s.s. trjásafni, gönguleiðum, bátaleigu og grillsvæðum. Í skóginum er hin víðkunna Atlavík þar sem löngum voru haldnar útisamkomur en nú eru rómuð tjaldsvæði.

Almennt um skóginn

Hallormsstaðaskógur er talinn stærstur skóga á Íslandi, þekur um 740 ha og er í eigu Skógræktarinnar. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði í fjölbreyttu landslagi. Í skóginum eru um 40 km af gönguslóðum og mikið af merktum gönguleiðum. Trjásafn með yfir 70 trjátegundum er einnig að finna á Hallormsstað. Atlavík er einn kunnasti staður í landi Hallormsstaðar og voru löngum haldnar þar útisamkomur. Þar eru vinsæl tjaldsvæði, bátaleiga og ferjan Lagarfljótsormurinn sigldi um skeið á milli víkurinnar og Egilsstaða. Á Hallormsstað er aðsetur skógarvarðarins á Austurlandi og starfstöð Skógræktarinnar. Í skóginum er þorp, það eina í skógi á Íslandi.

Staðsetning og aðgengi

Hallormsstaður er um 27 km frá Egilsstöðum, á austurströnd Lagarfljóts um 5 km utan við Fljótsbotninn, þar sem Jökulsá í Fljótsdal fellur í Fljótið. Ef ekið er frá Egilsstöðum er farið til suðvesturs um veg 95 þar til komið er að vegamótum við Grímsá. Í stað þess að beygja til vinstri þar sem vegur 95 liggur áfram inn Skriðdal er haldið áfram til hægri, yfir Grímsá og inn með Lagarfljóti í átt að Hallormsstað. Einnig er hægt að aka hinum megin við fljótið, en sú leið er nokkru lengri og ekki bundið slitlag á veginum alla leið.

Aðstaða og afþreying

Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði í fjölbreyttu landslagi. Í skóginum eru um 40 km af gönguslóðum og margar merktar gönguleiðir sem finna má á gönguleiðakorti. Fjölskylduvænt trjásafn með yfir 70 trjátegundum er einnig að finna á Hallormsstað. Í skóginum er hin víðkunna Atlavík þar sem löngum voru haldnar útisamkomur en þar er nú vinsælt tjaldsvæði. Ferjan Lagarfljótsormurinn sigldi um tíma á milli Atlavíkur og Egilsstaða og í víkinni hefur líka verið rekin bátaleiga. Í skóginum er auk þess að finna leiktæki og góð grillsvæði.

Kort af frisbígolfvellinumFrisbígolfvöllur með níu körfum er milli Atlavíkur og Guttormslundar. Gengið er frá bílastæðinu við Guttormslund og niður í lundinn þar sem fyrstu körfuna er að finna. Völlurinn er á skemmtilegu svæði þar sem er að miklu leyti bjartur, grisjaður lerkiskógur en líka birkiskógur. Við gerð teiganna var að sjálfsögðu notað timbur úr skóginum og í stað gerviefna var sett viðarkurl sem yfirborðsefni.

Frisbígolfvöllurinn í Hallormsstaðaskógi nýtur nú þegar töluverðra vinsælda og hann er kominn inn á vefinn Wikiloc þar sem hægt er að skoða völlinn betur, afstöðu hans á korti. Hringurinn er rétt rúmlega kílómetri að lengd en fólk sem spilar allan völlinn gengur auðvitað miklu lengri leið samanlagt. Þetta er því góð leið til að njóta lífsins í skóginum.

Það sama má segja um fjallahjólaleiðina í Hallormsstaðaskógi sem líka er hægt að finna á Wikiloc. Hún er rúmlega fimm kílómetra löng og byrjar við Hallormsstaðaskóla rétt ofan við ísbúðina sem allir sjá sem fara um skóginn. Hjólað er upp í Bjargselsbotna og þaðan liggur skemmtileg leið niður á við, um tveggja kílómetra fjallahjólabrun í fjölbreyttu landslagi með fallegu útsýni yfir Lagarfljót og Fljótsdalshérað. Þegar komið er niður liggur leiðin um skóg til baka að Hallormsstaðaskóla. Þetta er skemmtileg leið og flestum fær sem hafa gaman af léttu fjallahjólabrölti en þó ekki fyrir óvana. Miðlungs erfið leið.

Saga jarðarinnar

Árið 1899 samþykkti Alþingi lög sem heimiliðu friðun Hallormsstaðaskógar og náði sú friðun loks fram að ganga 1905. Hallormsstaðaskógur var þar með fyrsti þjóðskógur Íslands og var þetta jafnframt fyrsta skref Íslendinga í náttúruvernd, því skógurinn var friðaður til að vernda „einasta kjarrskóg á Íslandi sem hefur varðveist allsæmilega“ svo notuð séu orð Christians Flensborgs frá árinu 1901.

Árin 1905 til 1908 var girt frá Lagarfljóti beggja vegna frá hamrabelti í fjallinu ofan við bæinn, sem í daglegu tali er nefnt „Bjarg“, en það reyndist ekki nægileg vörn fyrir ágangi sauðfjár og því var girt betur árið 1925. Tveimur árum síðar var girt utan um syðsta hluta skógarins, svonefnda Ljósárkinn, sem skilin hafði verið eftir 1908. Þá var einnig girt skóglaust svæði er nefnist Geitagerði, þar sem reist var eftir seinni heimsstyrjöldina nýbýlið Sólheimar. Ekki var þó um algera beitarfriðun að ræða, því að nautgripir gengu frjálsir í skóginum til 1941. Árið 1957 var girðingin ofan við nyrsta hluta skógarins færð upp á svokallað Votabjarg, sem er sá hluti fjallsbrúnarinnar sem nær að Hafursá. Þar með var friðun Hallormsstaðalands lokið að svonefndum Ásum sem taka við suðvestan skógarins.

Árið 1947 keypti Skógræktin jörðina Hafursá, sem er næst Hallormsstað að norðanverðu. Jörðin var leigð til ábúðar næstu áratugina, en árin 1959 og 1960 var girt mjó spilda af landi hennar ofan þjóðvegarins að Lagarfljóti.  Áður en gengið væri frá ristarhliði á þjóðveginum á norðausturgafli girðingarinnar, gerðist það að eigendur Mjóaness, næstu jarðar norðan við Hafursá, ákváðu að afhenda Skógræktinni til afnota land þessarar jarðar milli þjóðvegar og Lagarfljóts, að undanskildu svæði kringum túnin. Girt skyldi ofan þjóðvegar. Lokið var við að girða þetta land 1964.  Hafði þá bæst um 5 km löng spilda út með Lagarfljóti við friðlandið á Hallormsstað. Gróðursetning í þessa nýju spildu hófst 1965 og var langt komin um 1980.

Trjárækt í skóginum

Nú, rúmri öld eftir friðun skógarins, er Hallormsstaðaskógur enn stærsti og þekktasti skógur landsins. Árið 1906 þakti birki um 250 ha innan girðingarinnar og eftir friðun tók það strax til við að breiðast út. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Þá hafa stór svæði bæst við Hallormsstaðaskóg á seinni árum; Hafursá/Mjóanes til norðurs, þar sem gróðursettir hafa verið miklir lerkiskógar og Ásar/Buðlungavellir til suðurs, þar sem sjálfsgræðsla birkis er í algleymingi.

Fjölskylduvænt trjásafn með yfir 70 trjátegundum er að finna á Hallormsstað en alls eru í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum víðs vegar um heiminn.

Annað áhugavert

Um verslunarmannahelgi árið 1984 sótti einn meðlima Bítlanna, Ringo Starr, árlega útihátíð sem þar fór fram og steig á svið með hljómsveitinni Stuðmönnum.

Í tilefni af 100 ára afmæli friðunar Hallormsstaðaskógar árið 2005 kom út bókin Hallormsstaður í Skógum: Náttúra og saga höfuðbóls og þjóðskógar eftir þá Hjörleif Guttormsson og Sigurð Blöndal.

Í Hallormsstaðaskógi stendur „Hríslan“ sem Páll Ólafsson gerði fræga í kvæði sínu, Hríslunni og læknum.

Kort af skóginum

Gönguleiðakort og gönguleiðalýsingar af Hallormsstaðaskógi