Ýmis verkefni blasa við jólatrjáabóndanum í desember en ef hann hefur ekki búið vel í haginn síðustu mánuði getur sú vinna reynst torveld.

Það er gaman að sækja sér jólatré í skóginn í skammvinnri dagskímunni. Ljósmynd: Pétur HalldórssonVerkefni desembermánaðar hjá jólatrjáaframleiðendum

 

Nú er úti veður vott,
verður allt að klessu.
Ekki á hann Grímur gott,
að gifta sig í þessu.

Vonandi er Grímur ekki jólatrjáabóndi sem á eftir að fara út og leita að jólatrjám sem hann hefur lofað fyrir komandi jólamarkað. Allt er á kafi í snjó og ofsaveðurspá annað slagið. Ef Grímur hlustar svo á auglýsingar í útvarpinu þar sem auglýstur er nordmannsþinur fyrir 3995 kr. er ekki víst að hann nenni að standa í þessu yfirleitt.

Fyrir hina sem fóru út í september og merktu trén sem voru tilbúin fyrir sölu er verkið mun auðveldara. Reyndar er alltaf erfitt að taka tré út úr skóginum þegar snjóskaflarnir eru komnir í mittishæð og borgar sig varla ef maður þarf að aka eða ganga langa leið til að komast að trjánum.

Þetta atriði er gott er að hafa í huga þegar nýtt svæði fyrir jólatré er valið. Svæðið á að vera aðgengilegt – líka í nóvember og desember – og trén á að gróðursetja innan afmarkaðs svæðis. Til dæmis gæti verið reitur A með x fjölda af trjám sem öll eru gróðursett á sama ári. Árið eftir er gróðursett í nýjan reit með y fjölda af trjám. Þetta auðveldar umhirðuna frá upphafi til enda.   

Íslensk jólatré eru vinsæl hjá mörgum en ekki átta sig allir á muninum á innfluttu og íslensku tré. Því er góð hugmynd að setja greinilegt merki á hvert jólatré sem gefur til kynna að tréð sé ræktað á Íslandi og hvar (bær, landshluti).

Jólatrésfætur eru af ýmsum stærðum og gerðum. Mikilvægast er þó að fóturinn sé stöðugur og að hann taki nægilega mikið vatn svo að lítil hætta sé á að þorni á trénu

Önnur góð hugmynd er að láta leiðbeiningar fylgja trénu með upplýsingum um trjátegundina og hvernig best er að meðhöndla tréð þegar komið er heim í stofu, svo sem með því að saga neðan af leggnum áður en tréð er sett í fótinn, að bæta við vatni á hverjum degi og þess háttar.

Á sumum sölustöðum er líka hægt að kaupa jólatrésfót með trénu og margar mismunandi útfærslur eru í boði eins og sést á myndinni hér til hliðar. Það sem skiptir máli er að fóturinn sé stöðugur, stillanlegur og örugglega vatnsþéttur.

Íslensk jólatré eru í boði á mismunandi stöðum á Íslandi og flest tré eru annað hvort fengin hjá skógræktarfélögum eða Skógræktinni vítt og breitt um landið. Skógarbændur eru þó líka farnir að framleiða jólatré, aðallega þó á Austurlandi enn sem komið er. Hér fyrir neðan má sjá hvaðan íslensku jólatrén eru í aðalatriðum. Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri og skýrari.