Gamli bærinn að Skógum (eyðibýli)

  •  Eigandi: Skógræktin
  • Sveitarfélag: Dalabyggð
  • Byggingarár:
  • Skráning og myndir:
  • Flatarmál lands: Um 600 ha.

Lýsing: Gamli bærinn að Skógum stendur hátt í landi og þaðan er frábært útsýni yfir innri hluta Hvammsfjarðar og hluta Breiðafjarðar. Íbúðarhúsið er steypt, á tveimur hæðum með nokkuð bröttu risi. Aðalhúsið er um er um 40 m² að grunnfleti. Skúrbygging á einni hæð stendur norðan við íbúðarhúsið. Aðrar byggingar á þessu svæði eru hrundar eða hafa verið rifnar. Gamli bærinn er illa farinn, brotnir gluggar og þakið ónýtt. Klæðningar að innan eru fúnar og allt á fallanda fæti. Athyglisverðir eru gamlir hlaðnir túngarðar norðan við bæinn. Fyrstu skriflegu heimildir um Skóga eru frá 1385 en þá tilheyrðu Skógar Staðarfelli í Dölum. Skógar eru ekki landnámsjörð en þar hefur verið búið frá öndverðu og sennilega hafa bæjarhúsin upphaflega verið reist fyrir ofan skógarmörk til hægðarauka. Skógurinn hefur í gegnum tíðina látið á sjá vegna vetrarbeitar. Milli 1970 og 1980 var búskapur fluttur frá gamla bænum niður fyrir Fellsstrandarveg þar sem byggt var nýbýli. Gamli bærinn fór í eyði 1991 en þá gaf Áskell Jóhannsson Skógræktinni land og byggingar í þeim tilgangi að svæðið frá Efribyggðarvegi og niður til sjávar yrði friðað fyrir öllum ágangi búfjár og að skóglaus svæði yrðu tekin til skógræktar. Svæðið neðan Efribyggðarvegar er um 17 ha. lands. Skógræktin lauk friðun Skóga árið 1996. Gerð hefur verið ræktunaráætlun fyrir þann hluta af landi Skóga sem kallast Neðra svæðið. Hlunnindi eru af æðarvarpi og selveiði en hafa ekki verið nýtt hin síðari ár.

Um AGA-koxvélarnar:

Í 1. tölublaði Samvinnunnar 1938 ritar Auður Jónasdóttir (1913‒2010):

Ýmsir munu kannast við Aga-eldavélar af afspurn. Þær eru dýrustu en þægilegustu eldavélar, sem til eru hér á landi. Þær eru fundnar upp og smíðaðar í Svíþjóð. Uppfyndningamaðurinn hét Gustaf Dalén og var verkfræðingur. Einu sinni þegar hann var að fást við tilraunir í rannsóknarstofu sinni hafði flaska með eitruðum gastegundum sprungið framan í hann og gert hann blindan. Aga-vélina fann hann upp eftir að hann varð blindur. Dalén fékk Nóbelsverðlaun fyrir uppfyndingar sínar.

Aga-vélarnar eru nú þegar notaðar á talsvert mörgum heimilum í sveitum og kaupstöðum, þar sem ekki er rafmagn til suðu. Leyndardómurinn við Aga-vélarnar er hve vel þær geyma hitann. Allar hliðar þessarar eldavélar eru mjög þykkar og úr margföldu einangrunarefni. Þær eru sparneytnar á eldivið, en brenna aðeins koksi, ca. 1½ tonni á ári. Koks kostar í Reykjavík ca. 60.00 krónum tonnið. Aga-eldavélarnar eru heitar allan sólarhringinn og tilbúnar til eldunar, þó ekki sé bætt á þær nema tvisvar á sólarhring, kvölds og morgna. Í þeim er jafnan heitt vatn til uppþvotta o.fl. Aga-vélarnar eru miklar fyrirferðar en smekklegar, kosta ca. 13‒14 hundruð krónur með tilheyrandi pottum. Vélar þessar er ekki hægt að nota sem miðstöðvarofna.

Sveitafólk, sem þarf að fá sér eldavélar í ný eða gömul hús ætti að leita sér nákvæmra upplýsinga áður en það festir kaup á eldavél. Vafalaust mundu byggingarráðunautar sveitanna veita upplýsingar um þetta efni, þegar til þeirra væri leitað bréflega eða munnlega.


Skógar (nýi bærinn neðan Fellsstrandarvegar)

  •  Eigandi: Skógræktin
  • Sveitarfélag: Dalabyggð
  • Byggingarár: Eftir 1970
  • Flatarmál lands: Um 600 ha
  • Skráning og myndir:

Lýsing: Laust fyrir 1970 var gamli bærinn að Skógum orðin það lélegur að ekki þótti heppilegt að endurbyggja gripahúsin, enda landrými ekki mikið og öll aðstaða óhentug til búrekstrar. Ákveðið var að byggja „nýbýlið“ Skóga fyrir neðan Fellsstrandarveg. Útihús við gamla bæinn í hlíðinni voru rifin og byggingarefni nýtt eins og kostur var til húsbyggingar á nýjum stað. Búskapurinn fluttist svo 1970 en íbúðarhúsið var ekki byggt fyrr en síðar. Helstu byggingar á jörðinni eru: fjós 81,2 m², hlaða 113m², mjólkurhús 27m², geymsla 117m², íbúðarhús um 70m². Íbúðarhúsið að Skógum hefur verið leigt út sem sumarhús um tíma og hefur leigjandinn sinnt húsinu og næsta nágrenni þess sérstaklega vel.