Merki Hekluskóga HekluskógarHugmyndin með Hekluskógaverkefninu er að ræka upp á ný birkiskóga og víði­kjarr í nágrenni Heklu. Sá gróður myndi minnka vikurfok í kjölfar gjóskugosa úr eld­fjallinu og verja þar með land í nágrenni fjallsins fyrir jarðvegseyðingu.

Þessi hugmynd er upphaflega komin frá Úlfi Óskarssyni skógfræðingi sem unnið hafði að rannsóknum á ræktun birkis á vikrum í nágrenni Heklu. Vorið 2005 tóku nokkrir aðilar sig saman og skipuðu samstarfshóp til að vinna málinu framgang. Í hóp­inn voru skipaðir fulltrúar frá landeigendum á svæðinu, Skógræktarfélagi Rangæinga, Skógræktarfélagi Árnesinga, Landgræðslusjóði, Suðurlandsskógum, Landgræðslu ríkisins og Skógræktinni. Hópurinn vann að undirbúningi ýmissa verk­þátta Hekluskóga, þar á meðal gagnaöflun og áætlanagerð.

Áætlað er að rúmlega 90 þúsund ha lands í nágrenni Heklu verði innan Hekluskógasvæðisins, eða nálægt 1% af Íslandi. Um 70% þess lands eru nú lítið gróin og á hluta þess er sandfok og mikið rof. Gert hefur verið frá upphafi ráð fyrir að verkefnið yrði að veruleika í þremur meginþrepum: (1) sandfok yrði stöðvað og illa farið land grætt upp til að bæta skilyrði fyrir trjágróður, (2) birki yrði gróðursett, ásamt gulvíði og loðvíði, í lundi þaðan sem þessar tegundir gætu síðan (3) sáð sér út á nokkrum áratugum yfir allt svæðið. Rannsóknir og reynsla hefur sýnt að með uppgræðslu illa farins lands er hægt að skapa góð skilyrði fyrir landnám þessara tegunda. Þannig miða aðgerðir á svæðinu fyrst og fremst að því að örva gróðurframvindu, fremur en að um samfellda ræktun sé að ræða.

Frá upphafi hefur fjöldi sjálfboðaliða úr ýmsum áttum tekið þátt í Hekluskógaverkefninu með margvíslegum hætti. Ýmis félög og klúbbar hafa tekið að sér verkefni og jafnvel einbeitt sér að ákveðnum svæðum, einstaklingar hafa tekið að sér einstök verkefni og jafnvel svæði og eins hópar úr skólum, vinnustöðum og fleira mætti nefna. Áhuginn er mikill á því mikilvæga verkefni að breiða út á ný birkiskóglendið sem í öndverðu var ríkjandi kringum Heklu og verndaði landið þegar askan úr eldfjallinu lagðist yfir í eldsumbrotum.