Því nær sem tréð óx heimili kaupandans, því betra

Á hverju ári standa margir Íslendingar frammi fyrir þeirri spurningu hvort kaupa eigi lifandi jólatré í stofuna eða láta slag standa og fá sér margnota tré sem enst geti árum saman. Hlýtur það ekki að vera betra fyrir budduna og jafnvel umhverfið líka, jafnvel þótt gervitréð sé úr plasti og framleitt hinum megin á hnettinum? Ekki er það alveg víst.

Fyrir nokkrum árum gerðu þrír sérfræðingar um sjálfbæra þróun rannsókn á þessum málum í Montréal í Kanada, þeir vélaverkfræðingurinn Sylvain Couillard, efnaverkfræðingurinn Gontran Bage og Jean-Sébastien Trudel, sem er hag- og umhverfisfræðingur. Þeir vildu vega og meta margvísleg umhverfisáhrif bæði lifandi jólatrjáa og gervitrjáa svo að almenningur gæti tekið upplýsta ákvörðun með umhverfið í huga.

Þeir félagarnir vildu skera með vísindalegum hætti úr um þessi efni í eitt skipti fyrir öll. Þeir beittu aðferðum svokallaðrar lífsferilsgreiningar samkvæmt ISO-stöðlum 14040 og 14044. Þá er ferillinn skoðaður allt frá hráefnisstigi til framleiðslu, notkunar og förgunar. Annars vegar var kannaður lífsferill lifandi jólatrjáa sem ræktuð höfðu verið á ökrum um 150 kílómetra frá Montréal en hins vegar gervijólatrjáa sem framleidd voru í Kína, flutt sjóleiðis til Vancouver og þaðan til Montréal. Út frá niðurstöðunum áttu neytendur að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvers konar jólatré þeir veldu út frá áhrifunum á umhverfið.

Í rannsókninni voru borin saman áhrif lifandi jólatrés og áhrif notkunar gervijólatrés í eitt skipti. Þar sem gervijólatré má nota aftur og aftur voru heildaráhrif þeirra metin en síðan deilt í áhrifin með áætlaðri meðalævi gervijólatrjáa. Gervijólatré eru að jafnaði notuð sex sinnum á norður-amerískum heimilum, eftir því sem kannanir sýna. Mörgum kann að þykja það léleg ending. Þegar fólk kaupir gervijólatré sér það gjarnan fyrir sér að nú sé það komið með jólatré sem endast muni í áraraðir, jafnvel tíu til tuttugu ár.

Gögnum um lifandi jólatré var annars vegar safnað hjá framleiðanda og hins vegar hjá rannsóknarstofnun landbúnaðar í Québec-fylki. Lífsferill þeirra skiptist í fernt, fjögurra ára uppeldi í trjáplöntustöð, ellefu ára vöxt á akri, notkun í heimahúsi og förgun.

Gögnum um gervijólatré var annars vegar safnað hjá bandarískum framleiðanda og hins vegar með hjálp kanadískrar stofnunar sem rannsakar lífsferil ýmiss konar framleiðsluvara og þjónustu. Stofnunin aflaði gagna um dæmigerða framleiðslu gervijólatrjáa í Kína. Lífsferli gervitrjánna var einnig skipt í fernt, framleiðslu í verksmiðju í Beijing ásamt dreifingu á markað, flutning heim til kaupandans, notkunina heima og loks förgun trésins

Aðferð sem kallast Impact 2002+ var notuð við mat á áhrifum trjánna á umhverfið að breyttu breytanda. Þá eru áhrifin flokkuð í fernt, áhrif á heilsu manna, gæði vistkerfa, loftslagsbreytingar og auðlindir.

Sem áður segir var deilt í heildarumhverfisáhrif gervijólatrjánna með sex, árafjöldanum sem þau eru notuð að jafnaði. Sú útkoma er borin saman við heildarumhverfisáhrif lifandi jólatrjáa enda eru þau aðeins notuð einu sinni. Í meðfylgjandi súluriti má sjá hlutfallsleg áhrif hvors um sig á þessa fjóra mismunandi flokka umhverfisáhrifa. Niðurstöður rannsóknarinnar voru að gervijólatrén hefðu þrefalt meiri áhrif á loftslagsbreytingar en lifandi tré. Svipaða sögu var að segja um áhrifin á heilsu manna en aftur á móti voru neikvæð áhrif lifandii trjáa á gæði vistkerfa fjórum sinnum meiri en gervijólatrjánna.

Mun meiri útblástur vegna gervitrjáa

Loftslagsmálin eru mál málanna þessa dagana og því er áhugavert að útblástur gróðurhúsalofts vegna framleiðslu lifandi jólatrés reiknast vera 39% af því sem reiknað er út miðað við notkun gervijólatrés ein jól. Hins vegar verður að hafa í huga að ef neytandinn fer vel með gervitréð og lætur það endast mun lengur en meðaltalsárin sex gæti dæmið snúist við. Til þess þyrfti hinn aðhaldssami og gætni neytandi reyndar að nota sama gervijólatréð í tuttugu ár eða lengur sem trúlega er fáheyrt. Þá verður einnig að gæta þess að umhverfisáhrif lifandi jólatrjáa aukast því meir sem þau eru flutt um lengri veg. Talsverður munur er á því hvort neytandinn kaupir tré úr heimahéraði og hefur stuttan veg að fara til að sækja tréð eða hvort tréð er aðflutt og langt að fara á sölustaðinn.

Næstmest umhverfisáhrif af lifandi trjám á eftir flutningum eru af förgun þess. Í Montréal er helmingur notaðra lifandi jólatrjáa urðaður en hinn helmingurinn kurlaður og notaður í stað jarðefnaeldsneytis í pappírsverksmiðju. Í heild nemur koltvísýringslosun vegna eins lifandi jólatrés 3,1 kílói af CO2 á ári en 8,1 kílói vegna gervijólatrésins (48,3 kg á lífsferli þess). Losun vegna lifandi trésins samsvarar akstri einkabíls um það bil 125 kílómetra en losun vegna gervitrésins fyrir hvert ár um 322 kílómetra. Meðalborgari í Montréal gæti því vegið þá losun upp með því að hjóla eða ganga til vinnu í eina til þrjár vikur á ári eftir því hvort jólatréð er lifandi eða gervi.

Vistkerfisáhrif mældust mun minni af gervitrjám en lifandi trjám. Hlutfallið var 1:5. Það helgast af því hversu mikið land þarf undir ræktun jólatrjánna. Bent er á það samt sem áður að jólatré séu gjarnan ræktuð á landi sem ekki sé hagkvæmt að nota til annars, til dæmis undir háspennulínum. Hér verður að hafa í huga að þarna voru mæld vistkerfisáhrif í Kanada og að sjálfsögðu vantar þá inn í myndina þau vistkerfisáhrif sem framleiðsla trjánna hefur í framleiðslulandinu, Kína. Loftslagsáhrif eru hins vegar ekki staðbundin.

Lifandi tré betri kostur

Niðurstöður rannsóknanna eru ótvíræðar. Fyrir umhverfið er lifandi jólatré mun betri kostur en gervijólatré. Lifandi trén eru samt sem áður ekki gallalaus. Þeim fylgja líka einhver umhverfisáhrif og neytendur geta vegið upp mikil umhverfisáhrif gervitrjánna ef þeir hafa úthald til að nota þau í tuttugu ár eða lengur. Miðað við ýmislegt annað sem almennur borgari gerir í lífi sínu eru þó áhrif jólatrjáa á umhverfið hverfandi. Þar er nærtækast að nefna einkabílinn sem hefur umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, hvernig sem á málið er litið.

Íslensku trén kolefnishlutlaus?

Þetta var um rannsókn sem gerð var í Kanada en hvernig skyldi þessum málum vera háttað á Íslandi? Ekki er annað að sjá en allt það sama ætti að gilda um gervijólatré á Íslandi sem um þau gildir í Kanada. Ræktun lifandi jólatrjáa á Íslandi er hins vegar nokkuð ólík því sem er í Kanada. Hér eru jólatré að mestu leyti tekin úr skógræktarreitum sem hluti af grisjun skóganna en ekki ræktuð á ökrum. Því má segja að jólatré séu aukaafurð skóganna og umhverfisáhrif vegna þeirra felast því eingöngu í þeim akstri sem þarf til að sækja þau í skóginn, koma þeim heim í stofu og til förgunar eftir jólin. Augljóst er að því nær sem jólatréð óx heimili þess sem kaupir það, því betra.

Enn fremur er vert að nefna að hagnaður af sölu jólatrjáa er í flestum tilvikum notaður til að rækta fleiri tré sem binda koltvísýring, mynda verðmæti, skjól, öflugri vistkerfi, útivistarsvæði og allt hitt sem skógar gefa okkur og náttúrunni.

Og jafnvel þótt jólatré sé höggvið úti í skógi hefur það gert sitt gagn á sinni stuttu ævi. Eins og bent hefur verið á í  danskri grein binst kolefni í jarðvegi meðan jólatrén eru að vaxa upp. Rótarkerfi trjánna verður eftir í jörðinni þegar jólatrén eru höggvin og víst má telja að stór hluti kolefnisins í rótunum sé bundinn til frambúðar í jarðveginum.  Ímyndum okkur að við tökum stafafuru úr íslenskum skógi. Í ofanjarðarvexti hennar, trénu sjálfu, gætu hafa bundist tíu kíló af CO2 úr andrúmsloftinu. Þá má gera ráð fyrir að hátt í tíu kíló verði eftir ofan í jörðinni. Þetta þýðir með öðrum orðum að á móti þeirri losun sem hlýst af uppskeru og flutningi trésins eruþegar bundin mörg kíló af koltvísýringi í jörðinni. Mögulega er íslenska jólatréð kolefnishlutlaust, jafnvel þótt notaðir séu fáeinir lítrar á heimilisbílinn til að sækja tréð út í skóg. Ef trénu er skilað til moltugerðar eftir áramót verður til úr því næringarríkur jarðvegsbætir og jafnvel svolítið af metangasi sem beislað er og notað á bíla og vélar.

Valið ætti því að vera einfalt, veljum lifandi íslenskt jólatré, styðjum við skógrækt á Íslandi, spörum gjaldeyri og verndum umhverfið.

Texti: Pétur Halldórsson