Birki í Víðivallaklauf í Fljótsdal. Mynd: Þröstur EysteinssonNáttúrulegt birkilendi er þekja alls náttúrulegs birkis á Íslandi, birkikjarrs og birkiskógar. Birkiskógur kallast ef í honum eru birkitré lágmarki 2 m á hæð. Lægra birki flokkast sem birkikjarr. Þekjan er afrakstur kortlagningar á árunum 2010-2014 sem starfsmenn Skógræktar ríkisins unnu að. Rannsóknastöð Skógræktarinnar á Mógilsá hafði umsjón með verkinu.

Birki var kortlagt ýmist ofan á loftmyndir/gervitunglamyndir eða með því að ganga línur með GPS-staðsetningartæki. Til þess var notuð felttölva, í henni teiknaðar línur og eigindir gefnar fyrir hvern kortlagðan fláka.

  • Notuð var alþjóðleg skilgreining FAO við kortlagningu birkis
  • Lágmarkskortlagningareining: 0,5 ha
  • Lágmarkskrónuþekja innan kortlagningareiningar: 10% krónuþekja
  • Skil milli birkikjarrs og birkiskóga eru 2 m.
  • Greint er á milli núverandi hæðar og mögulegrar hæðar birkilendis þegar það hefur náð fullum vexti.

Ástæða þess að hæð fullvaxta birkilendis er skráð kemur til af skilgreiningum FAO yfir skóglendi, en þar er ávallt miðað við fullvaxta skóglendi. Flatarmál birkiskóga skv. FAO er því miðað við hæðarflokkun fullvaxta birkilendis. Flatarmál núverandi birkiskóga er samkvæmt flokkun um núverandi hæð birkis.