Skógræktin leggur áherslu á góð gagnkvæm samskipti við alla hagsmuna­aðila stofnunarinnar. Stefnt er að því að bæta öll samskipti þannig að tryggja megi sem víðtækasta sátt um starfsemi Skógræktarinnar meðal allra sem starfa við skógrækt og landnýtingu.

 

Stjórnsýsla ríkisins

Rekstur Skógræktarinnar er að mestu fjármagnaður með framlagi af fjárlögum ríkisins. Stofnunin leggur áherslu á að nýta sem best það fjármagn sem ráðstafað er hverju sinni til skógræktarmála, m.a. með hagkvæmni í rekstri og aukinni kostnaðarvitund starfsmanna. Skógræktin leggur áherslu á að góð og opin samskipti við umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem önnur ráðuneyti séu lykilþáttur í að markmið stofnunarinnar náist.

 

Atvinnulíf og sveitarfélög

Atvinnulífið og sveitarfélögin í landinu hafa tekið virkan þátt í skógrækt á undanförnum áratugum og því er mikilvægt að Skógræktin hlúi að samstarfi og samskiptum við þessa aðila. Þar á meðal eru skógarbændur sem leita nú í enn meiri mæli eftir þjónustu, fræðslu og ráðgjöf frá Skógræktinni eftir sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt í eina stofnun. Samvinna við sveitarfélög er hluti af stærra verkefni við að bæta búsetuskilyrði og tryggja byggð í dreifbýli.

 

Almenningur og skólar

Mikilvægt er að byggja upp og viðhalda góðri ímynd gagnvart almenningi. Leggja þarf áherslu á upplýsingamiðlun og fræðslu til ræktenda og gefa almenningi tækifæri til að nýta þjóðskógana í frístundum. Mikilvægasti hópurinn er unga kynslóðin. Leggja þarf áherslu á „skógaruppeldi“ nemenda á öllum skólastigum.

 

Skógræktarfélög, Landssamtök skógareigenda og önnur félagasamtök

Mikilvægt er að Skógræktin hafi frumkvæði að öflugu samstarfi við skógræktarfélögin og að stofnunin dragi sig í hlé á sviðum þar sem samkeppni ríkir og sem augljóst er að frjáls félög geti sinnt. Landssamtök skógareigenda er hagsmunafélag skógarbænda á landsvísu. Mikilvægt er að samtökin eflist í baráttu fyrir hagsmunum skógareigenda. Enn fremur ber að upplýsa ýmis umhverfisverndarsamtök (s.s. Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd) um þátt skógræktar í umhverfisvernd.

 

Starfsmenn

Skógræktin leggur áherslu á að laða til sín hæft starfsfólk með fjölbreytta menntun og bakgrunn. Áhersla er lögð á að bjóða upp á góða vinnuaðstöðu með greiðum aðgangi að upplýsingum og reglulegum tækifærum til endurmenntunar og starfsþróunar. Lögð er áhersla á samvinnu þvert á svið starseminnar og að saman fari völd og ábyrgð.

 

Rannsóknarsamfélag

Skógræktin leggur áherslu á að viðhalda góðum tengslum og efla samstarf við aðrar rannsóknarstofnanir og æðri menntastofnanir, m.a. til þess að nýta sem best þekkingu og fjárfestingar til rannsókna. Hér má nefna RALA, Náttúrufræðistofnun, HÍ, HA og LbhÍ. Einnig er mikilvægt að viðhalda góðum samskiptum við þá sem hafa umsjón með fjármögnun rannsókna, svo sem menntamálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið, RANNÍS og Framleiðnisjóð landbúnaðarins.

 

Innlendar fagstofnanir

Starfsemi Skógræktarinnar er háð góðum samskiptum og samvinnu við ýmsar innlendar fagstofnanir og samtök. Skógræktin á mikilvæg samskipti við þessa aðila, m.a.varðandi umsagnir, samráð, fjármögnun og samrekstur verkefna. Þar á meðal eru Landgræðsla ríkisins, Ferðamálaráð, Umhverfisstofnun, Fornleifavernd ríkisins, Skipulagsstofnun og Bændasamtökin.

 

Erlendir samstarfsaðilar

Samstarf við erlenda aðila er mikilvægur hluti af starfsemi Skógræktarinnar. Sérstaklega á þetta við um rannsóknar- og þróunarstarf, þar sem þekkingu er gagnkvæmt miðlað við erlendar systurstofnanir, vísindaaðila og alþjóðasamtök. Áhersla er lögð á virka þátttöku í verkefnum á vegum rammaáætlana ESB og Norrænu ráðherranefndarinnar. Tryggja þarf að rödd Íslands heyrist í umræðum um ýmsa alþjóðasáttmála.

Stefnumótun Skógræktarinnar fór fram veturinn 2015-2016 og má nálgast hér á vefnum (sjá kafla til hægri) og einnig hlaða niður í heild sinni: