Hverjar eru helstu gerðir skógræktar á Íslandi?

Skipta má skógrækt í sjö meginflokka, auk fjölnytjaskógræktar þar sem markmiðin skarast.

Ýmsar stofnanir og samtök unnu að verkefninu Skógrækt í sátt við umhverfið á fyrsta áratug aldarinnar og árið 2009 var afraksturinn gefinn út í formi tillögu að stefnumótun í skógrækt á Íslandi. Í verkefninu voru settir fram sex flokkar skógræktar eftir markmiðum en síðan hefur einn flokkur bæst við, kolefnisskógrækt. Oft falla mörg þessara markmiða saman og þá er talað um fjölnytjaskógrækt. Hér á eftir skulu flokkar þessir tíundaðir.

1. Borgarskógrækt. Í þennan flokk fellur skóg- og trjárækt innan þéttbýlissvæða. Með slíkri ræktun er stefnt að bættu og fegurra umhverfi í þéttbýli, auknum loftgæðum, minni hávaða, eflingu lífríkis o.s.frv. Þegar gróðursett eru tré í görðum og á opnum svæðum í þéttbýli er mikilvægt að huga áhrifum þess á nágrennið þegar trén stækka. Sveitarfélög geta sett reglur um trjárækt í þéttbýli. Í Reykjavík er í gildi reglugerð sem segir að á lóðarmörk megi ekki gróðursetja tré sem verða hærri en 1,8 m og að stór tré megi einungis gróðursetja í að lágmarki þriggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum.

2. Endurheimt náttúruskóga. Eitt af meginmarkmiðum skógræktar hér er endurheimt náttúruskóga landsins, en við landnám er talið að 25%-40% landsins hafi verið skógi eða kjarri vaxin. Þetta voru birkiskógar og birkikjarr með stöku gulvíði og reyniviði og á fáeinum stöðum blæösp, auk þess sem víðitegundir mynduðu samfelldar flesjur. Nú þekur birkiskóglendi einungis um 1,5% landsins. Við endurheimt náttúruskóga eru notaðar þær trjátegundir sem hér voru að fornu, birki, reyniviður, gulvíðir og blæösp en einnig loðvíðir sem telst runni en ekki tré. Beitarfriðun umhverfis skógarleifar getur verið árangursrík aðferð við að breiða náttúruskógana út á ný. Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka svokallaðri Bonn-áskorun Evrópulanda með því að setja markið á 5% þekju birkiskóglendis á Íslandi árið 2030.

3. Landgræðsluskógrækt. Markmið þessarar skógræktar er jarðvegsvernd, endurhæfing vistkerfa, skjólmyndun, vatnsmiðlun og aðrir umhverfisþættir. Vöxtur og form trjánna er ekki aðalatriði, þótt auðvitað sé nauðsynlegt að þau nái eðlilegum þroska. Skógrækt með þessu markmiði er jafnan stunduð á svæðum sem eru illa farin af jarðvegs- og gróðureyðingu. Nánar um verkefnið Landgræðsluskóga.

4. Nytjaskógrækt. Skógrækt með þessu markmiði er gjarnan skipt í tvo meginflokka, timburskógrækt og jólatrjáarækt. Aðalmarkmið timburskógræktar er að skapa auðlind sem orðið getur undirstaða fjölbreyttrar atvinnustarfsemi í framtíðinni. Í timburskógrækt þarf að leggja áherslu á góðan vöxt trjánna og viðargæði. Einnig þarf oft að huga sérstaklega að vaxtarhvetjandi aðgerðum, eins og jarðvinnslu og áburðargjöf. Afurðir slíkrar ræktunar geta verið fjölbreyttar, til notkunar í ýmiss konar handverk, smíðar og iðnað. Aðeins lítið brot af timbri sem nýtt er í heiminum verður að smíðaviði. Meirihlutinn er ýmiss konar iðnviður, m.a. sem orku- eða kolefnisgjafi. Skógrækt á lögbýlum er stærsta nytjaskógaverkefni landsins.

Jólatrjáræktun er stunduð til þess að framleiða tré og greinar til skreytinga á aðventu og jólum. Slík skógrækt gerir miklar kröfur til útlits trjánna og trjátegundavals. Jólatré eru ræktuð víða um land. Mest er ræktað af rauðgreni og stafafuru, en einnig töluvert af sitkagreni, blágreni og fjallaþin til notkunar um jólin. Jólatrjáarækt dregur úr innflutningi bæði lifandi jólatrjáa og gervitrjáa og er þar með mikilvægt umhverfismál en styrkir líka innlenda atvinnustarfsemi og ræktun.

5. Skjólbeltarækt. Markmið skjólbeltaræktar er að auka uppskeru og veita búfénaði, mannvirkjum og mannlífi skjól. Skjólbeltin stuðla að aukinni framleiðni í landbúnaði og auka verðmæti annarra framleiðsluþátta. Þau veita líka mikilvæga vörn gegn náttúruöflunum. Eins má nefna önnur markmið eins og byggja upp skjól fyrir frekari skóg- og garðrækt. Fjölbreytni í vali á tegundum trjáa og runna er mikilvæg vegna útlits beltanna og ræktunaröryggisins, auk þess sem slík belti geta orðið mikilvæg fyrir ýmsar lífverur, ekki síst fugla. Skjólbelti eru ekki endilega beinar trjáraðir heldur getur lögun þeirra og staðsetning í landslaginu verið með ýmsu móti eftir markmiðum ræktunarinnar. Gott er að njóta ráðgjafar sérfræðinga við skipulag og ræktun skjólbelta til að árangurinn verði sem bestur.

6. Útivistarskógrækt er stunduð með það að markmiði að skapa aðlaðandi umhverfi og útivistarvettvang fyrir almenning. Mikilvægt er að slíkir skógar séu fjölbreyttir og aðlaðandi ásamt því að veita gott skjól. Vöxtur og form trjánna skiptir minna máli en í ræktun til viðarnytja. Afbrigðilegt vaxtarform getur haft sérstakt aðdráttarafl á slíkum svæðum. Aðgengi fólks þarf að vera gott að útivistarskógum. Í slíkum skógum er yfirleitt þörf á aðgengilegum göngustígum og ýmisskonar aðstöðu til afþreyingar. Skógar landsins eru afar fjölsóttir. Skógrækt til útivistar og yndis er eitt meginmarkmið skógræktar í landinu. Útivistarskógrækt er algengust í og við þéttbýli og alfaraleiðir. Einnig er slík ræktun stunduð afar víða á sumarbústaðalöndum. Sumarbústaðahverfi landsins eru mörg hver orðin samfelldur skógur á að líta. Þá er líka vel hægt að flétta trjárækt þannig inn í þéttbýlisskipulag að úr verði aðlaðandi skógarumhverfi í sjálfri byggðinni. Slíkt dregur úr loft- og hljóðmengun, eflir lífríkið í þéttbýlinu og stuðlar að betri heilsu íbúanna.

7. Kolefnisskógrækt. Á síðustu árum hefur nýtt markmið orðið áberandi í skógrækt á Íslandi og víða um lönd, skógrækt til bindingar kolefnis sem mótvægi við losun. Taka skal skýrt fram að kolefnisskógrækt eða önnur sambærileg verkefni eiga ekki að vera fyrsta aðgerðin sem gripið er til í loftslagsmálum. Fyrsta verkefnið er að meta eigin losun, gera áætlun um hvernig draga megi úr henni og hrinda þeirri áætlun í framkvæmd. Það sem út af stendur – þá losun sem er óhjákvæmileg á hverjum tíma – er hægt að vega upp með mótvægisaðgerðum svo sem með nýskógrækt. Slík verkefni skulu unnin af ábyrgð og þau skulu vera gagnsæ og rekjanleg. Það er best gert með því að skrá þau í Loftslagsskrá Íslands og vinna þau samkvæmt alþjóðlega viðurkenndu vottunarkerfi. Dæmi um slíkt kerfi er Skógarkolefni.

Fjölnytjaskógrækt er viðbótarflokkur sem nær til þess þegar ofangreindir flokkar skarast að miklu leyti. Meginmarkmið skógræktarstarfsins (1-7) falla stundum saman, tvö eða fleiri, auk þess sem markmið ræktunarinnar geta breyst með tíma og þroska trjánna. Þá á hugtakið fjölnytjaskógrækt vel við og þetta gildir raunar um stóran hluta nýskógræktar á Íslandi.

Víða í nágrannalöndunum er aukinn þrýstingur á að skógar séu meðhöndlaðir sem fjölnytjaskógar, þar sem tekið sé tillit til sem flestra sjónarmiða svo sem náttúruverndar, aðgengis almennings og hagnýtingar. Hugtakið „fjölnytjaskógrækt“ er íslensk þýðing á ensku hugtaki, multipurpose forests eða multiple-use forestry sem má kynna sér með leit á vefnum.

Fjölnytjaskógrækt er hugtak sem lýsir bæði staðreynd og markmiðum. Staðreyndin er sú að allir skógar gegna fjölþættum hlutverkum, burtséð frá því hver meginmarkmiðin eru með ræktun þeirra. Þannig eru skógar sem ræktaðir eru til viðarnytja einnig búsvæði fjölda lífvera, þeir vernda jarðveg, binda kolefni, skapa skjól og eru nýttir til útivistar af fólki. Þeir framleiða líka fleira en trjávið, t.d. sveppi, ber, fugla, fæðu handa smádýrum í ám og lækjum sem aftur halda uppi fiskstofnum og margt fleira sem fólk getur haft nytjar af. Það sama gildir um skóga ræktaða með önnur meginmarkmið í huga. Skógar sem ræktaðir eru til uppgræðslu örfoka lands, til útivistar, til að endurhæfa brotið vistkerfi eða einfaldlega til að fegra land gegna einnig öllum þessum hlutverkum og geta þar að auki gefið af sér timbur í sumum tilvikum. Það er því eðlilegt að gera fjölnytjar að markmiði með skógrækt, án þess að það trufli meginmarkmiðið. Dæmi um fjölnytjaskóga má finna um allt land. Daníelslundur í Borgarfirði hefur verið nefndur sem ágætt dæmi um fjölnytjaskóg, þar sem markmið ræktunarinnar hafa breyst í tímans rás. Þegar skógrækt hófst þar var meginmarkmiðið timburnytjar. Það hefur hins vegar þróast í átt til útivistarskógræktar og er svæðið nú afar fjölsóttur útivistarstaður. Einnig er þar stunduð viðarnýting til þess að standa straum af kostnaði við útivistina. Heiðmörk og Kjarnaskóg, einhver vinsælustu útivistarsvæði landsins, mætti einnig flokka sem fjölnytjaskóga og marga fleiri skóga.