Sem hluti af aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er Skógræktinni falið að efla tengsl við og styðja félagasamtök með sérstöku verkefni. Verkefnið Vorviður er hluti aðgerðaráætlunarinnar og bættrar landnýtingar í þágu loftslags.

Markmið og forsendur

Kennimerki VorviðarMarkmið verkefnisins er að efla samstarf Skógræktarinnar og ýmissa félaga um allt land í því augnamiði að gefa félögum kost á að binda kolefni með eigin skógrækt. Félög sem nota land sem þegar er á skipulögðu skógræktarlandi munu njóta forgangs. Plönturnar skulu vera ræktaðar í ræktunarstöð og það telst vera kostur ef hún er í heimahéraði. Ekki er um að ræða styrk vegna eigin plöntuframleiðslu.

Áhugafólk við gróðursetningu. Ljósmynd: Pétur HalldórssonStuðningurinn felst í endurgreiðslu kostnaðar við plöntukaup eingöngu. Félög sækja um styrkinn til Skógræktarinnar sem annast umsýslu þessa verkefnis. Sækja þarf um fyrir hvert ár eins og vinnureglur kveða á um.

Umsóknarfrestur fyrir verkefni árið 2021 er til 15. janúar 2021.

Umsóknareyðublað

Fræðsla um skógrækt

Almennar upplýsingar um nýskógrækt er að finna undir  Skógrækt hér á vef Skógræktarinnar. Þar eru upplýsingar um lauftrjátegundir, barrtrjátegundir, skaðvalda sem herja á tré, jólatré og ræktun þeirra, upplýsingar um  gróðurelda og forvarnir gegn þeim og margt fleira. Þá má benda á fræðslubæklinga Skógræktarinnar, sérstaklega bæklinginn  Fræðsluefni um skógrækt sem tæpir á öllum helstu atriðum sem hafa þarf í huga í skógrækt. 

Bæklingar

Myndbönd

Ótal myndbönd er að finna á netinu um skógrækt en við viljum sérstaklega benda á fræðslumyndbönd Skógræktarinnar. Smám saman bætist nýtt efni í safnið en þar eru m.a. leiðbeiningar um gróðursetningu, umhirðu ungskóga og fleira og fleira.

Fræðsla á vef Skógræktarfélags Íslands

Mikið efni er einnig að finna á vef Skógræktarfélags Íslands. Félagið gefur m.a. út fræðsluritið Frækornið sem er til sölu á vefnum . Frækornið er lítill fjórblöðungur sem inniheldur upplýsingar um afmarkaða þætti skógræktar, til dæmis einstakar trjátegundir, ræktun við tiltekin skilyrði (til dæmis á lyngmóum), plágur sem herjað geta á tré og skóga, jólatré, fræsöfnun og margt fleira. Jafnframt gefur félagið út Skógræktarritið tvisvar á ári, vandað rit með fjölbreyttum greinum um skógrækt.

 

Birkiplöntur að laufgast. Ljósmynd: Pétur Halldórsson