Sem hluta af aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er Landi og skógi falið að efla tengsl við og styðja félagasamtök með sérstöku verkefni. Verkefnið Vorviður er hluti aðgerðaráætlunarinnar og bættrar landnýtingar í þágu loftslags. Umsóknarfrestur fyrir árið 2024 er 15. mars.

Markmið og forsendur

Markmið verkefnisins er að efla samstarf Lands og skógar við ýmis félög um allt land í því augnamiði að gefa félögum kost á að binda kolefni með eigin skógrækt. Félög sem nota land sem þegar er á skipulögðu skógræktarlandi njóta forgangs. Plönturnar skulu vera ræktaðar í ræktunarstöð og það telst vera kostur ef hún er í heimahéraði. Ekki er um að ræða styrk vegna eigin plöntuframleiðslu.

  • Áhugafólk við gróðursetningu. Ljósmynd: Pétur HalldórssonStuðningurinn felst í endurgreiðslu kostnaðar við plöntukaup eingöngu. Félög sækja um styrkinn til Lands og skógar sem annast umsýslu þessa verkefnis. Sækja þarf um fyrir hvert ár eins og vinnureglur kveða á um.
  • Umsóknarfrestur fyrir verkefni árið 2024 er til 15 mars 2024.
  • Nánari útfærslur, leiðbeingar og einstakar forsendur úthlutana eru aðgengilegar hér á upplýsingasíðu verkefnisins.
  • Um hvert verkefni er gerður samningur við Skógræktina.

Úthlutað var í fyrsta sinn úr Vorviði árið 2021 og gengu út 6,8 milljónir króna, sem runnu til 21 verkefnis um allt land. Síðan hefur verið úthlutað með svipuðum hætti 2022 og 2023.

Sækja um styrk


NÁNARI ÚTFÆRSLA - ÚTHLUTUNARREGLUR - FRÆÐSLA

Umsækjendur

Markhópurinn er almenn félög eða félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Fyrirtæki og opinberar stofnanir eða félög (hf., ehf., sf., ohf.) koma ekki til greina.

Umsóknir

Félög sækja um styrkinn til Lands og skógar sem annast umsýslu þessa verkefnis. Umsóknar­frestur er að jafnaði í febrúar eða mars ár hvert. Umsóknarfrestur árið 2024 er til 15. mars.

Rafræn umsóknareyðublöð eru á vefnum: www.skogur.is/vorvidur. Í umsókn þarf að koma fram:

  • Nafn (og kennitala ef við á) heimilisfang, símanúmer og netfang félags og forsvarsmanns/tengiliðar
  • Ræktunarsvæði, staðsetning og landgerð (lýsing ásamt mynd eða korti)
  • Skipulagsleg staða landsins og verndarákvæði ef einhver eru
  • Leyfi landeiganda (afrit af samningi/samkomulagi)
  • Áætlað umfang, landstærð, fjöldi plantna, plöntutegundir og kostnaðaráætlun

Forsendur styrkveitingar

Umsóknarfrestur rennur út í febrúar ár hvert og hálfum mánuði síðar eða svo tilkynnir verkefnisstjóri umsækj­end­um um úthlutun vegna ársins.

Félag sem hlýtur styrk gerir samning við Land og skóg fyrir eitt ár í senn. Samningi fylgja leið­beiningar um tegundaval og ræktun. Plöntur skulu vera af tilteknum teg­undum skógartrjáa. Ekki er um að ræða skrauttré eða skrautrunna.

  • Að umsækjandi hafi leyfi landeiganda fyrir framkvæmdinni og að hún stangist ekki á við verndarákvæði skv. landslögum eða skipulagsáætlun viðkomandi sveitarfélags
  • Landið sé friðað fyrir beit
  • Styrkhæfar trjátegundir eru tegundir sem metnar eru hæfar til að binda kolefni úr andrúmsloftinu hérlendis:
    • ilmbjörk og hengibjörk
    • reyniviður, gráreynir, silfurreynir og alpareynir
    • rússalerki, evrópulerki og lerkiblendingurinn 'Hrymur'
    • stafafura, bergfura og lindifura
    • sitkagreni, rauðgreni, hvítgreni og blágreni
    • fjallaþinur
    • gráelri, blæelri, svartelri, ryðelri og sitka-/græn-/kjarrelri
    • alaskaösp og blæösp
    • jörvavíðir, alaskavíðir, sitkavíðir, lensuvíðir og selja
  • Gerður verður samningur við styrkþega um viðkomandi skógræktarverkefni. Samn­ing­ur byggist á upplýsingum umsækjanda, einfaldri ræktunaráætlun og kostnaðaráætlun

Forgangur að styrkjum

Forgangsröðun mótast einkum af ræktunaröryggi, aðallega hvað varðar beitarfriðun og ör­ugga getu félaga til að koma hlutum í verk.

Land

  • Stærri lönd sem eru skipulögð til skógræktar og friðuð fyrir beit eða svæði innan slíkra heilda, t.d. svæði innan skógræktarsvæða sveitarfélaga eða annarra aðila
  • Stærri einkalönd sem eru friðuð fyrir beit
  • Minni svæði (minnst 1 ha) sem eru friðuð fyrir beit
  • Svæði sem ekki eru friðuð fyrir beit koma ekki til greina
  • Frístundalóðir koma ekki til greina

Félög

  • Formleg félög sem ekki hafa aðgang að annarri fjármögnun til skógræktar, t.d. góð­gerðarfélög og áhugamannasamtök
  • Óformleg félög sem ekki hafa aðgang að annarri fjármögnun til skógræktar, t.d. vinnu­staðafélög
  • Félög sem hafa aðgang að annarri fjármögnun til skógræktar, t.d. skógræktarfélög
    • Fyrirtæki og opinberar stofnanir eða félög (hf., ehf., sf., ohf.) koma ekki til greina.

Forsendur afgreiðslu styrks

  • Greiðsla styrks fer fram í nóvembermánuði, að því gefnu að fyrir 1. október, hafi um­sækjandi skilað framkvæmdaskýrslu á þar til gerðu eyðublaði og útlínum hins nýja skógar, hnituðu inn með sérstöku appi. (nánari upplýsingar sendar tengiliðum)
  • Afrit sundurliðaðra plöntureikninga.

Um verkefnisstjórn og hlutverk verkefnisstjóra

  • Skógræktin skipar sérstakan verkefnisstjóra til að annast verkefnið. Hlutverk verkefnis­stjóra er að taka við umsóknum, yfirfara þær, meta og úthluta styrkjum. Hann sér um að fræða styrkþega og veita þeim ráðgjöf, fylgist með framgangi verkefna, tekur við framkvæmdaskýrslum og afritum reikninga og gengur úr skugga um að verkið hafi farið fram og að reglum verkefnisins hafi verið fylgt.
  • Tillögur verkefnisstjóra um úthlutun hvers árs eru samþykktar af Landi og skógi.

Fræðsla um skógrækt

Almennar upplýsingar um nýskógrækt er að finna undir Skógrækt hér á vefnum skogur.is. Þar eru upplýsingar um lauftrjátegundir, barrtrjátegundir, skaðvalda sem herja á tré, jólatré og ræktun þeirra, upplýsingar um gróðurelda og forvarnir gegn þeim og margt fleira. Þá má benda á fræðslubæklinga Skógræktarinnar, sérstaklega bæklinginn Fræðsluefni um skógrækt sem tæpir á öllum helstu atriðum sem hafa þarf í huga í skógrækt.

Bæklingar

Myndbönd

Ótal myndbönd er að finna á netinu um skógrækt en við viljum sérstaklega benda á fræðslumyndbönd um skógrækt. Smám saman bætist nýtt efni í safnið en þar eru m.a. leiðbeiningar um gróðursetningu, umhirðu ungskóga og fleira og fleira.

Fræðsla á vef Skógræktarfélags Íslands

Mikið efni er einnig að finna á vef Skógræktarfélags Íslands. Félagið gefur m.a. út fræðsluritið Frækornið sem er til sölu á vefnum . Frækornið er lítill fjórblöðungur sem inniheldur upplýsingar um afmarkaða þætti skógræktar, til dæmis einstakar trjátegundir, ræktun við tiltekin skilyrði (til dæmis á lyngmóum), plágur sem herjað geta á tré og skóga, jólatré, fræsöfnun og margt fleira. Jafnframt gefur félagið út Skógræktarritið tvisvar á ári, vandað rit með fjölbreyttum greinum um skógrækt.

Birkiplöntur að laufgast. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Úthlutanir