Hér eru lögð fram til kynningar drög að landsáætlun í skógrækt og drög að umhverfismati þeirrar áætlunar.

Drög að landsáætlun

Innsendar umsagnir

Tilefni mótunar nýrrar stefnu, landsáætlunar í skógrækt, byggist á 4. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019. Það segir: Ráðherra gefur út eigi sjaldnar en á fimm ára fresti landsáætlun í skógrækt til tíu ára í senn. Landsáætlunin skal kveða á um stefnu stjórnvalda þar sem fjallað er um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt. Landsáætlun í skógrækt fjallar um málaflokkinn skógrækt, sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Skógræktin er sú ríkisstofnun sem fæst við málaflokkinn. Heildstæð stefna á þeim forsendum sem hér gilda hefur ekki áður verið unnin. Lokaafurð er heildarstefna í skógrækt á Íslandi til næstu 10 ára.

Samlegðaráhrif við landgræðslustefnu

Stefna þessi skal vera í samræmi við  landgræðsluáætlun , sem unnin er samhliða henni, að því marki að þar náist samlegðaráhrif um áherslur sem skarast. Hún hefur afgerandi áhrif á landshlutaáætlanir í skógrækt, sem unnar verða af Skógræktinni með sveitarfélögum eða svæðissamböndum þeirra og hagaðilum. Landsáætlun í skógrækt hefur að öðru leyti ekki áhrif á aðrar opinberar áætlanir, en er þannig úr garði gerð að hún styðst við og styður aðrar stefnumótandi áætlanir. Má þar nefna Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, Landsskipulagsstefnu, Stefnumótandi byggðaáætlun og Lýðheilsustefnu. Einnig styðst hún við og styður alþjóðasamninga og markmið.

Umhverfismat áætlunarinnar

Skv. lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 ber að meta umhverfisáhrif áætlana sem þessarar.

Í drögum að matsskýrslu er fylgt lýsingu sem samþykkt var af Skipulagsstofnun í desember 2019 auk ábendinga frá Skipulagsstofnun í apríl 2021. Hún hefst á umfjöllun um gerð tillagna að landsáætlun í skógrækt. Svo er fjallað um val á umhverfisviðmiðum, umhverfisþáttum og umhverfisvísum og sviðsmyndum sem bornar eru saman lýst. Síðan er fjallað um tengsl stefnumiða landsáætlunar við forsendur hennar skv. lögum. Loks er lagt mat á umhverfisáhrif stefnumiðanna miðað við umhverfisviðmiðin, sem eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og samþykktir ráðherrafunda Forest Europe.

Minnihlutaálit

Skiptar skoðanir voru meðal aðila í verkefnisstjórn áætlunarinnar sem leiddi til þess að samið var minnihlutaálit. Það fylgir hér með og er því einnig hægt að skila athugasemdum um það.

Ábyrgð

Ábyrgðarmaður beggja skýrslna er Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri throstur@skogur.is

Drög að landsáætlun í skógrækt