Þú getur sótt jólatré í skóginn í öllum landshlutum á aðventunni

Úr jólatrjáaskógi í Haukadal. Ljósmynd: Hreinn ÓskarssonSkógræktin, skógræktarfélög og fleiri bjóða fólk velkomið í skógana fyrir jólin til að velja rétta jólatréð. Slík ferð er orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra.

Þegar jólatré eru sótt í skóginn fær fólk lánaða sög og fylgir síðan leiðbeiningum starfsfólks um hvar megi sækja tré og hvernig bera skuli sig að.

Hér fyrir neðan má sjá hvar hægt er að ná sér í tré í skógum Skógræktarinnar fyrir jólin ásamt fleiri upplýsingum. Neðst er hlekkur á jólatrjáavef skógræktarfélaganna og einnig á fræðsluvef Skógræktarinnar um jólatré og ræktun þeirra.

Tré sem fólk sækir sjálft í skóginn hafa ákveðið gildi umfram tré sem keypt eru tilbúin á jólatrjáamörkuðum. Hugtakið „okkar tré“ fær aukna merkingu auk þess sem þetta er skemmtileg útivera í skógi á árstíma þegar fólk sækir minna í skóginn en annars er. Þessi aðferð við sölu jólatrjáa tengir fólk betur við skógrækt í landinu. Afraksturinn þess sem skóginn ræktar fer í að rækta meiri skóg.

 Austurland

Ekki verður auglýstur sérstakur dagur í ár þegar fólk getur komið og fellt sér jólatré í austfirskum þjóðskógi. Trén á svæðinu sem selt var úr um árabil eru orðin of stór. Fólk sem vill sækja sér tré getur þó komið virka daga í Hallormsstaðaskóg og fengið að sækja sér tré. Þá er farið í starfstöð Skógræktarinnar á Hallomsstað eða haft samband við skógarvörð í síma 470-2070. Einnig eru austfirskir skógarbændur farnir að selja jólatré úr skógum sínum og sömuleiðis Skógræktarfélag Austurlands í Eyjólfsstaðaskógi.

Suðurland

Opið er jafnan fyrir jólatrjáahögg í Haukadalsskógi tvær helgar í desember. Verð trjáa er í tveimur flokkum, undir 2 m hæð og 2-4 m tré óháð tegund. Verðið verður auglýst þegar nær dregur jólum. Í skóginum má finna stafafuru, rauðgreni og blágreni

Norðurland

Skógræktin heldur jólamarkað í Vaglaskógi annan laugardag desembermánaðar. Þar eru til sölu jólatré, greinar, eldiviður og fleira úr Vaglaskógi, þingeyskt handverksfólk selur ýmsan varning og skólabörn í Stórutjarnaskóla veitingar til ágóða fyrir ferðasjóð sinn. Markaðurinn hefst klukkan 13 og stendur til kl. 17.

Almenningi er ekki boðið að höggva sín eigin jólatré í þjóðskógunum á Norðurlandi en tvær helgar í desember býður Skógræktarfélag Eyfirðinga öll sem vilja velkomin í Laugalandsskóg á Þelamörk þar sem fólk getur fundið sér tré og sagað. Tréð kostar 7.000 kr. óháð stærð. Í kaupbæti er ketilkaffi og kakó, jafnvel piparkökur ef vel liggur á skógarfólki. Í Laugalandsskógi er aðallega stafafura en einnig má finna stöku rauðgreni og jafnvel blágreni.

Vesturland

Eina helgi í desember getur fólk komið í Selskóg í Skorradal og sótt sér tré í skóginn. Sömuleiðis má búast við að Skógræktin verði með jólatré til sölu á jólamarkaði sem konur á Hvanneyri og sveitunum í kring standa að skömmu fyrir jól.
  • Skógræktarfélög um allt land bjóða fólki einnig að koma í sína skóga til að velja sér jólatré. Nánari upplýsingar má finna á jólatrjáavef félagsins.