Í skógi sem ræktaður er í 200 ár má binda nærri tvöfalt meira kolefni með því að nytja skóginn í stað þess að láta hann vaxa óáreittan. Athuganir á samanlögðum bindingaráhrifum nytjaskógar í samanburði við ónytjaðan skóg sýna að nytjaskógrækt og kolefnisbinding fer mjög vel saman.

Úr Stálpastaðaskógi Skorradal. Ljósmynd: Pétur HalldórssonSumir telja að allt tal um kolefnisbindingu með skógrækt sé hálfgert plat ef skógurinn er nytjaður í leiðinni. Kolefnið sé fjarlægt með timbrinu við skógarhögg og þá sé bindingin orðin að engu. Sé viðurinn brendur til að baka pitsur eða notaður sem kolefnisgjafi í kísilmálmvinnslu er kolefninu skilað aftur út í andrúmsloftið í formi CO2. Sé viðurinn hins vegar flettur í borð og planka og síðan notaður í húsbyggingar eða annað endingargott endist hann í áratugi eða aldir og kolefnið í honum er bundið áfram um það langan tíma, en auðvitað ekki til eilífðar. Dæmið er þó flóknara.

Viður sem kemur í stað jarðkola eða olíu við orkuframleiðslu eða málmvinnslu hefur reyndar loftslagságóða í för með sér þrátt fyrir brennslu hans, því þá er verið að vinna innan hringrásar kolefnis sem fyrir er á yfirborði og í lofthjúpi jarðar í stað þess að bæta kolefni úr jarðlögum inn í hringrásina. Viður sem kemur í stað steinsteypu í byggingum dregur úr gríðarstóru kolefnisspori steypunnar. Mörg fleiri dæmi mætti nefna. Síðan þarf að taka tillit til áhrifa grisjunar, þáttar jarðvegs og margs fleira. Þetta getur orðið nokkuð flókið reiknisdæmi og því telja sumir lausnina frekar felast í því að gróðursetja til skóga og nytja þá ekki. Það er þó ekki góð lausn til lengri tíma litið. Um þetta má fræðast nánar hér: Friðun eða nýting.

Myndin sýnir spá um kolefnisbindingu í lerkiskógi þar sem notaðar voru vaxtarjöfnur til að framreikna vöxt og varð til við keyrslu á forritinu IceForest sem Timo Pukkala þróaði miðað við mælingar í íslenskum lerkiskógum, mest á Héraði. Spáin er því raunhæf miðað við vöxt rússalerkis við íslenskar aðstæður. Forsendur spárinnar eru annars vegar þær að lerkiskógur sé gróðursettur og síðan látinn eiga sig án nokkurra aðgerða í 200 ár (rauða línan) og hins vegar þær að sams konar skógur sé nytjaður með einni grisjun í hverri lotu, lokafellingu og endurnýjun yfir sama tímabil (græna línan). Í þeirri meðferð er miðað við að grisjun sé ekki ykja mikil og að lokafelling eigi sér stað þegar vöxtur lerkisins er orðinn hægur. Þannig hámarkast arðsemi og kolefnisbinding verður einnig mikil. Bláa línan sýnir uppsafnaða kolefnisbindingu í nytjaskóginum miðað við að megnið af timbrinu úr grisjuninni verði kurlað og eigi því stuttan líftíma en að megnið af timbrinu úr lokafellingunni eigi sér langan líftíma sem borð og plankar í byggingum. Ekki er ágóðinn af því að nota timbur í stað jarðefnaeldsneytis eða steinsteypu tekinn með, en þá næði bláa línan enn hærra.

Á seinni hluta fyrstu aldarinnar hefur skógurinn sem ekki er nytjaður vinninginn í kolefnisbindingu, en eftir það er vöxtur hans orðinn svo hægur að uppsöfnuð kolefnisbinding nytjaskógarins verður meiri. Sá munur eykst svo eftir því sem tíminn líður. Eftir tvær aldir er nytjaskógurinn búinn að binda hér um bil helmingi meira kolefni en skógurinn sem ekki er nytjaður. Þannig fer nytjaskógrækt og kolefnisbinding mjög vel saman.

Texti og línurit: Þröstur Eysteinsson og Lárus Heiðarsson