Stefna í málefnum starfsfólks á að tryggja því ákveðin starfsskilyrði og möguleika á að vaxa og dafna í starfiMarkmiðið með starfsmannastefnunni er að Skógræktin hafi alltaf á að skipa hæfu og áhugasömu starfsfólki sem getur tryggt nauðsynlegt frumkvæði í störfum, veitt góða þjónustu og brugðist við síbreytilegum þörfum Skógræktarinnar. Stefna í málefnum starfsfólks á að tryggja því ákveðin starfsskilyrði og möguleika á að vaxa og dafna í starfi. Leitast skal við að skapa aðstæður til að samræma starf og fjölskyldulíf.

Stefna í málefnum starfsfólks Skógræktarinnar nær til þeirra sem ráðnir eru til starfa hjá stofnuninni. Um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna fer að lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 og kjarasamningum, sbr lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Stefnan nær einnig til þeirra embættismanna sem þiggja laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar, sbr. lög um Kjaradóm og kjaranefnd nr. 120/1992 og þeirra starfsmanna sem standa utan stéttarfélaga og fjármálaráðherra ákvarðar laun fyrir.

Leiðarljós

  • Virðing fyrir fólki
  • Samvinna og sveigjanleiki
  • Jafnræði, þekking og frumkvæði
  • Þjónustulund

Skyldur Skógræktarinnar

  • Virða allt starfsfólk sitt og viðhorf þess mikils
  • Virkja starfsfólk til að móta og bæta starfsemina
  • Starfa í anda jafnræðis og jafnréttis
  • Bjóða upp á verkefni þar sem hæfileikar hvers og eins fá notið sín
  • Stuðla að því að starfsfólk geti aukið þekkingu sína og starfshæfni
  • Leggja áherslu á gæði starfs og hátt þjónustustig
  • Upplýsa starfsfólk um hlutverk þess og ábyrgð

Skyldur starfsfólks

  • Virða samstarfsfólk sitt
  • Sé viðbúið þróun og breytingum og taki þátt í þeim
  • Viðhalda þekkingu sinni og auka við hana
  • Sinna starfi sínu af trúmennsku og metnaði
  • Sýna ábyrgð