Ósnortinn náttúruskógur við þjóðveginn í bland við fallega skógrækt.

Amennt um skóginn

Birkiskóglendi í brekku með gróðursettum reitum af furu, greni og lerki.

Staðsetning og aðgengi

Sigríðarstaðaskógur er vestarlega í norðurhlíðum Ljósavatnsskarðs. Aðkoman að skóginum er frá Sigríðarstöðum. Bærinn stendur norðan við þjóðveg 1 um það bil í miðju Ljósavatnsskarði. Aka þarf um hlaðið á bænum og sem leið liggur til vinstri.

Aðstaða og afþreying

Þjónustuslóðir liggja um gróðursettu reitina en ekkert hefur verið gert til að auðvelda fólki för um stærstan hluta birkiskógarins. Hann er því nánast ósnortinn náttúruskógur með birkijarri sem víða er torfært um eins og gjarnan er í íslensku birkiskóglendi. Villibjörkin í Ljósavatnsskarði hefur þó verið að teygja sig upp á við með hlýnandi veðri undanfarin ár og æ myndarlegri tré farin að sjást í kjarrinu.

Saga skógarins

Skógræktin keypti Sigríðarstaðaskóg árið 1927 og friðaði hann sama ár. Hafði neðri hluti skógarins verið mikið nýttur til eldiviðarhöggs á árunum þar á undan en efri hlutinn til beitar og ástand skógarins því ekki gott þegar Skógræktin tók við honum. Tíu árum seinna hafði skógurinn náð sér að því marki að aftur var hægt að stunda takmarkað eldiviðarhögg. Síðan hafa af og til verið takmarkaðar viðarnytjar af skóginum en nú er komið að umtalsverðri grisjun í gróðursettu reitunum. Nokkuð hefur verið unnið þar að grisjun undanfarin ár, til dæmis í furureitum.

Trjárækt í skóginum

Þegar Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga var stofnað 1943 fékk það afnot af hluta Sigríðarstaðaskógar og gróðursetti þar nokkuð um og eftir 1950 en flutti starfsemi sína svo yfir í Fossselsskóg. Um svipað leyti hóf Skógræktin að gróðursetja í suðvesturhorn skógarins. Alls var gróðursett í um 20 hektara innan skógarins fram til 1990 en ekkert síðan. Flatarmál skógarins er alls 125 ha, þar af um 105 ha birkiskógur. Birkið er nú í sókn í Ljósavatnsskarði.

Annað áhugavert í skóginum

Bratti hlíðarinnar eykst eftir því sem ofar dregur og því leggja færri leið sína þangað. Þar er því að finna algjörlega ósnortinn birkiskóg og fyrirhafnarinnar virði að fara um þær fáförnu slóðir. Í villtum skógi má sjá bæði eldri tré og yngri og feysknir trjábolir, standandi eða fallnir, bera vott um hringrásir náttúrunnar. Mikið fuglalíf er í Sigríðarstaðaskógi og algengt að forvitnir músarrindlar skjótist milli greina í fárra metra fjarlægð frá gestum skógarins. Mikið er um auðnutittling einnig í birkiskóginum og minnsti fugl landsins, glókollur, tístir þar löngum sínum hátíðnihljóðum. Hann heldur sig aðallega í barrtrjánum og heldur niðri grenilús og annarri óværu. Þá galar hrossagaukur og steypir sér niður með hljóðum á flugi sínu.