Sækja þarf um leyfi til hvers kyns fellingar á skógi, hvort sem skógur verður áfram ræktaður á viðkomandi svæði eða skógi eytt til frambúðar. Ákvæði eru um mótvægisaðgerðir. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÍ lögum um skógrækt númer 33 frá árinu 2019 kemur fram að felling skóga eða hluta þeirra sé óheimil nema með leyfi Skógræktarinnar, jafnvel þótt áfram verði skógur á viðkomandi svæði. Varanleg eyðing skógar að hluta eða í heild er einnig óheimil. Sé hún óhjákvæmileg skal hún tilkynnt Skipulagsstofnun sem leitar umsagnar Skógræktarinnar. Skylt er að ráðast í mótvægisaðgerðir vegna varanlegrar skógareyðingar.

Sækja þarf skriflega um fellingarleyfi þar sem fram kemur hvar áformað sé að fella skóg og hvenær,  á hversu stóru svæði og hvaða aðferð verði beitt við fellinguna (fellingarkerfi). Að fenginni umsókn metur Skógræktin hvort umsókn er í samræmi við viðmið um sjálfbæra skógrækt.

Skógræktinni er heimilt að binda fellingarleyfi skilyrðum svo tryggt verði að skógur verði endurnýjaður, með öðrum orðum til að tryggja að aftur vaxi upp skógur í stað þess sem felldur var. Vinna við endurnýjun skógarins þarf að hefjast innan tveggja ára frá skógarhögginu.

Jafnframt er Skógræktinni falið það hlutverk að hafa eftirlit með endurnýjun skóganna. Ef aðgerðir til endurnýjunar skógarins hefjast ekki eins og skilyrði fellingarleyfi kveða á um er Skógræktinni heimilt að beita þvingunarúrræðum.

Varanleg eyðing skógar er framkvæmdaleyfisskyld af hálfu viðkomandi sveitarfélags. Í slíkum tilfellum er Skógræktin umsagnaraðili og óskar eftir nauðsynlegum gögnum, m.a. til þess að standa skil á kolefnisforða viðkomandi skóglendis. Tilkynna þarf til Skógræktarinnar hvernig staðið verði að mótvægisaðgerðum eins og kveðið er á um í 19. gr. laga nr. 33/2019.

Tvenns konar umsókn

Eyðublöð til að sækja um fellingu skógar eru tvenns konar. Annars vegar er umsókn um fellingarleyfi skógar en hins vegar umsókn um varanlega eyðingu skógar. Munurinn felst í því hvort áfram verður skógur á viðkomandi svæði eða hvort landið verður notað í annað að lokinni fellingu.

Nánar um skógarhögg í lögum um skógrækt

18. gr. laga nr. 33/2019 Fellingarleyfi
   Felling skóga eða hluta þeirra, sbr. 12. tölul. 2. gr., er óheimil nema með leyfi Skógræktarinnar. Umsókn um fellingarleyfi skal vera skrifleg og innihalda upplýsingar um staðsetningu og stærð svæðis, hvaða fellingarkerfi standi til að nota, tímasetningu fellingar og hvernig verði staðið að endurnýjun skógarins. Skógræktin metur hvort umsókn sé í samræmi við viðmið um sjálfbæra skógrækt, sbr. 2. mgr. 17. gr.
   Heimilt er að binda fellingarleyfi skilyrðum til að tryggja endurnýjun skógar. Aðgerðir við endurnýjun skógarins skulu hefjast eigi síðar en tveimur árum eftir fellingu.
   Skógræktin hefur eftirlit með endurnýjun skóga skv. 1. mgr. Hefjist aðgerðir til endurnýjunar skóga ekki í samræmi við skilyrði fellingarleyfis er Skógræktinni heimilt að beita þvingunarúrræðum, sbr. 22. gr.
19. gr. laga nr. 33/2019 Varanleg eyðing skóga
   Varanleg eyðing skóga að hluta eða í heild er óheimil.
   Sé varanleg eyðing skógar óhjákvæmileg skal tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun leitar um það efni umsagnar Skógræktarinnar.
   Komi til varanlegrar eyðingar skógar skal framkvæmdaraðili ráðast í mótvægisaðgerðir til að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfið af eyðingu skógarins, með hliðsjón af markmiðum laga þessara, svo sem með endurheimt náttúruskógar eða ræktun nýrra skóga, og skal framkvæmdaraðili leita álits Skógræktarinnar á útfærslu mótvægisaðgerða. Mótvægisaðgerðir skulu hefjast eigi síðar en tveimur árum eftir eyðingu.
   Sveitarfélag skal leita álits Skógræktarinnar á framkvæmd sem felur í sér varanlega eyðingu skógar áður en ákvörðun er tekin um útgáfu framkvæmdaleyfis. Ákveði sveitarfélag að heimila framkvæmd sem Skógræktin leggst gegn í áliti sínu skal rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega.