Fjölmargar gönguleiðir liggja um þjóðskóga landsins og eru sumar merktar en aðrar ekki. Ljósmynd: Esther Ösp GunnarsdóttirUnnið er að upplýsingasíðu um gönguleiðir í þjóðskógunum. Vorið 2019 var efnt til samstarfs stofnana á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um sameiginlegan kortagrunn fyrir útivistarleiðir á þeim svæðum sem stofnanirnar hafa umsjón með. Þar á meðal eru þjóðskógarnir sem Skógræktin sinnir.

Að samstarfinu standa Skógræktin, Landgræðslan, Vatnajökulsþjóðgarður, Landmælingar Íslands, Umhverfisstofnun, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Hugmyndin er að til verði samstillt kortakerfi þessara stofnana sem gerir kleift að bæta inn leiðum eftir þörfum og uppfæra staðsetningarhnit, ljósmyndir, texta og aðrar upplýsingar eftir þörfum. Þetta gefur færi á stóraukinni þjónustu og öruggari upplýsingum fyrir ferðafólk sem getur þá hlaðið niður hnituðum gönguleiðum í snjalltæki sín eða tölvur og skoðað leiðirnar á nákvæmu Íslandskorti.

Á meðan við bíðum eftir þessari nýju þjónustu má benda á þá bæklinga sem Skógræktin hefur gefið út um nokkra af helstu þjóðskógum landsins. Jafnframt má benda á kort af þjóðskógum á Íslandi sem er að finna hér í valröndinni til hægri.