Lat: Abies

Þinur (fræðiheiti: Abies) er flokkur sígrænna barrtrjáa af þallarætt (Pinaceae). Þinættkvíslin tilheyrir barrskógabeltinu og fjöllum norðurhvels jarðar svipað og greni og lerki en nokkrar tegundir ná þó suður í tempraða beltið.

Meira um

Af um 49 þintegundum hafa þrjár tegundir sem við þekkjum vel langmesta útbreiðslu; síberíuþinur, balsamþinur og fjallaþinur. Aðrar þintegundir eru bundnar við takmarkaðri svæði í fjöllum. Sumar eru mjög sjaldgæfar, enda hafa þær orðið innlyksa hátt í fjöllum á suðlægum slóðum þegar hlýnaði í lok ísaldar.

Nokkrar þintegundir í vestanverðri Norður-Ameríku eru meðal stórvöxnustu trjáa heims. Það er ekki síst stofninn sem getur orðið mjög gildur og á það í raun við um alla þini. Við góð skilyrði geta þinir vaxið mjög hratt. Af því leiðir að viðurinn er oftast léttur og ekki ykja sterkur. Hann þykir helst góður til framleiðslu á pappír. Að öðru leyti eru þinir falleg tré, regluleg í laginu með mjúkar nálar og ilma vel. Þinir eru vinsælir bæði sem jólatré og garðtré víða um heim.

Allar þintegundir eru skuggþolnar í æsku, aðlagaðar því að lifa í skógarbotni og bíða tækifæris til vaxtar þegar einhver röskun fellir stærri tré. Þeir hafa svokallað æskubarr sem nýtir lága birtu vel en er ekki vel varið gagnvart vindi og þurrki. Því þola ungplöntur illa við á berangri hér á landi og það getur tekið áratug eða meira áður en plönturnar fara að mynda harðgerðari nálar fullorðinna trjáa. Þar sem okkar skógrækt fæst einkum við að koma skógi til á skóglausu landi hafa þinir tiltölulega litlu hlutverki að gegna, a.m.k. þar til kemur að annarri kynslóð trjáa.