GaltalækurGaltalækur í Biskupstungum hefur verið skógræktarjörð frá árinu 1988.

Skógræktina stunda þau Njörður Geirdal, Sigurbjörg Snorradóttir, Agnes Geirdal og Guðfinnur Eiríksson.

Á myndinni sést falleg stafafura og Jarlhettur í fjarska til norðurs.

Skipulagðir eru 122 hektarar til skógræktar á Galtalækjarjörðinni og gróðursettar hafa verið rúmlega 346 þúsund plöntur. Mest er af greni, tæp 40%. Fjórðungurinn er fura, fimmtungur lerki og tíundi hluti ösp. Einnig er nokkuð af birki, elri, reyni og öðrum tegundum.

Einkennandi landgerðir eru mýrar, móar, tún og malarásar. Skógurinn er þegar farinn að nýtast vel til útivistar. Mikil áhersla er lögð á að kvista skóginn og hugsa sem best um hann til að auka verðmæti afurðanna í framtíðinni.

Auk skógræktar er líka stunduð býflugnarækt á Galtalæk og gengur vel. Um hana má fræðast í myndbandi sem Skógræktin hefur gefið út og heitir Hunangsframleiðsla í íslenskum skógum.