Skemmdir eftir birkikembu. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir
Skemmdir eftir birkikembu. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir

Fiðrildi birkikembu: Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirTvær nýjar meindýrategundir á birki hérlendis, birkikemba og birkiþéla, virðast geta valdið talsverðum skemmdum. Ekki er þó komin reynsla á hvaða áhrif þessar tegundir hafa á vöxt og afdrif birkis. Í Ársriti Skógræktarinnar sem kom út snemmsumars er fjallað um þessa nýju skaðvalda og rannsóknir sem hafnar eru á þeim.

Greinina skrifa líffræðingarnir Brynja Hrafnkels­dóttir og Edda Sigurdís Oddsdóttir. Hún er á þessa leið: 

Rannsóknir á birkikembu og birkiþélu

Frá því að ísöld lauk er ilmbjörk (Betula pubescens) eina innlenda trjátegundin sem myndar skóga á Íslandi. Ilmbjörk tilheyrir birkiætt en þeirri ætt tilheyra aðrar birkitegundir, auk elris. Tegundir birkiættar vaxa víða um norðurhvel jarðar. Ilmbjörk er í daglegu tali kölluð birki en er þó ekki eina tegund þeirrar ættar hér á landi, þar sem tegundin fjalldrapi eða hrís (Betula nana) finnst víða. Fjalldrapi er mun minni en ilmbjörkin, auk þess sem lauf fjalldrapans eru kringlóttari og án odda. Náttúrulegt birki og fjalldrapi þekur nú um 1,5% landsins og hæstu trén geta náð allt að 20 m. Þá er birki jafnframt sú tegund sem er algengust í íslenskri skógrækt. 

Ýmsir skaðvaldar herja á birki og geta valdið nokkrum skaða í birkiskógum. Fram til 2008 voru það einkum tígulvefari (Epinotia solandriana), birkivefari (Acleris notana) og haustfeti (Operophtera brumata) sem ollu mestu tjóni en reglulega berast nýir skaðvaldar til landsins, skógræktendum og trjáeigendum til mikils ama. Fjallað verður um tvo slíka vágesti í þessari grein, en báðir virðast vera á góðri leið með að dreifa sér um allt landið. 

Lirfa birkiþélu (til vinstri) og birkikembu (til hægri) í laufblaði birkis. Greinilegur munur sést á úrgangi lirfanna, úrgangur þélunnar er kúlulaga en kemban skilur eftir sig þráðlaga skít. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirBirkikemba (Eriocrania unimaculella) er fiðrildi af kembufiðrildaætt (Eriocraniidae) en meðlimir ættarinnar eru fáir, smávaxnir af fiðrildum að vera, og finnast eingöngu á norðurhveli jarðar. Birkikemba fannst fyrst á Íslandi árið 2005 og er eina tegund þessarar ættar sem hefur fundist á Íslandi. Þetta smágerða fiðrildi er glansandi, bronslitað með silfraða skellu að aftan. Lirfurnar eru ljósar á litinn með dökkan flekk á hausnum og lifa eingöngu á ilmbjörk (Betula pubescens). Lífsferill birkikembunnar er þannig að í apríl skríða fiðrildin úr púpum og verpa fljótlega í brum birkis. Þegar lirfur klekjast úr eggjum skríða þær inn í laufblaðið og nærast á blaðhold­inu fram í júní. Þegar þær eru orðnar fullvaxnar yfirgefa þær laufblöðin, skríða niður í jörðu til að púpa sig og dvelja þannig yfir veturinn. Laufin sem lirfan nærist á verða brún, hol að innan og blása upp með tímanum. Því getur hún valdið talsverðum sjónrænum skaða á birki. Hins vegar verpir birkikemban aðeins einu sinni á ári og því eru þau laufblöð sem myndast eftir að flugtíma fiðrildisins lýkur óskemmd. Undanfarin ár hefur birki oft náð að jafna sig ágætlega með haustinu þar sem ný, græn blöð vaxa á því.  

Haustið 2016 fundust aftur á móti lifandi lirfur inni í birkiblöðum á Suðurlandi sem ollu svipuðum lauf­skemmdum og birkikemban. Þetta endurtók sig haustið 2017 og bárust fregnir af sams konar skemmdum af Norðurlandi. Þetta olli nokkrum heilabrotum, þar sem engar heimildir eru til um að birkikemba verpi oftar en einu sinni á ári. Í ljós kom að um var að ræða aðra skordýrategund, birkiþélu (Scolioneura betuleti), og hefur hún ekki fundist áður á Íslandi. Ólíkt birkikembu er birkiþéla ekki fiðrildi heldur tilheyrir hún blaðvespuætt (Tenthredinidae) sem er stór ætt og inniheldur fjölbreyttar vesputegundir um allan heim. Tegundin er evrópsk að uppruna og barst til N-Ameríku seint á síðustu öld, þar sem hún hefur enn sem komið er takmarkaða útbreiðslu. Í hvorugri heimsálfunni telst hún til alvarlegra skaðvalda, en skyldar tegundir (einnig evrópskar að uppruna) hafa valdið nokkrum áhyggjum í Kanada. Fullorðnu dýrin eru svört að lit, smávaxin og líkjast mörgum öðrum vesputegundum. Lirfurnar eru hvítar með dökkan haus. Ólíkt birkikembu lifir birkiþéla ekki einungis á ilmbjörk heldur fleiri birki- og elritegundum. Lífsferill birkiþélu er ekki vel þekktur en erlendis finnast lirfur hennar frá ágúst fram í október, sem rímar vel við reynsluna hér á landi.   

Hér á eftir verður fjallað um núverandi útbreiðslu og fundarstaði þessara tveggja tegunda, sem báðar eiga það sameiginlegt að valda skemmdum á íslenska birkinu, með því að éta innan úr laufblöðum þess. Einnig verður fjallað um fyrstu niðurstöður nýrrar rannsóknar sem hófst á árinu þar sem kvæmaval birkikembu er skoðað.  

Útbreiðsla birkiþélu 2017. Kort: Brynja Hrafnkelsdóttir/LandmælingarÚtbreiðsla birkikembu 2017. Kort: Brynja Hrafnkelsdóttir/LandmælingarNúverandi útbreiðslusvæði birkikembu og birkiþélu 

Upplýsingum um útbreiðslu var safnað með vettvangsferðum greinahöfunda auk upplýsinga frá öðrum starfsmönnum Skógræktarinnar og athugulum ræktendum. Þegar þetta allt var tekið saman fékkst ágætis mynd af núverandi útbreiðslusvæði þessara tveggja tegunda.  

Síðan birkikemba fannst fyrst í Hveragerði árið 2005 hefur hún dreift sér um landið. Í dag finnst hún á Suðurlandi, víða á Vesturlandi, í Skagafirði og í Eyjafirði. Enn sem komið er hefur hún ekki fundist á austanverðu landinu. 

Birkiþéla fannst einnig á 18 svæðum á landinu núna í haust og er hún á góðri leið að ná birkikembu í dreifingu um landið. Þessir mörgu fundarstaðir benda til þess að birkiþéla hafi dvalið hér í einhvern tíma áður en hún upp­götvaðist. Núverandi útbreiðslusvæði hennar nær úr uppsveitum Suðurlands, vestur fyrir landið upp í Hvalfjörð, auk þess að finnast í Eyjafirði.

Rannsókn á kvæmavali birkikembu 

Sumarið 2017 hófst rannsókn á því hvort munur væri á milli mismunandi kvæma birkis hvað varðar skemmdir af völdum birki­kembu. Rannsóknin, sem ber yfirskriftina „Trjáskemmdir af völdum birki­kembu og munur á milli birkikvæma“ er styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins og er samstarfs­verkefni Skógræktarinnar og Landgræðslu ríkisins. Meginmarkmið verkefnisins voru að kanna hvort birkikemba legðist mismikið á ólík kvæmi birkis. Aðalrannsóknasvæðið var birkikvæmatilraun í Varmadal í Rangár­valla­sýslu sem lögð var út árið 1998. Birkikvæma­tilraunin í Varma­dal er hluti af stærri tilraun, þar sem sömu birkikvæmi voru gróðursett á átta stöðum á landinu. Í Varmadal eru 42 birki­kvæmi í 5 blokkum, alls 3.150 plöntur. Allar lifandi plöntur voru hæðar­mældar auk þess að skemmdir af völdum birki­kembu og annarra fiðrilda­lirfa voru metnar. Fyrstu niðurstöður sýndu að mörg af fallegustu trjánum virtust verða meira fyrir barðinu á kembunni og ef meðalhæð kvæma er borin saman við meðalskemmdir af völdum birkikembu finnst þar hámarktækt jákvætt samband á milli. Ekkert samband fannst aftur á móti á milli meðalhæðar kvæma og annarra fiðrildaskemmda. Nokkur kvæmi eru þrátt fyrir þetta bæði hraðvaxta og lítið skemmd af völdum birkikembu og gefa vonir um að hægt sé að finna birkikvæmi sem eru minna viðkvæm fyrir skemmdum af völdum birkikembu.  

Lokaorð 

Hér að ofan hefur verið fjallað um birkikembu og birkiþélu sem báðar eru nýjar meindýrategundir á birki hérlendis. Tegundirnar virðast geta valdið talsverðum skemmdum en ekki er komin reynsla á hvaða áhrif þessar tegundir hafa á vöxt og afdrif birkis. Þar sem tegundirnar eru ekki virkar á sama tíma árs, fær birkið minni tækifæri til að ljóstillífa á eðlilegan hátt yfir sumartímann og búa sig undir vetrardvala. Lirfur annarra fiðrildategunda sem eru á ferli fyrri hluta sumars, til dæmis tígulvefara og haustfeta, geta valdið miklu tjóni og jafnvel skógardauða í stórum faröldrum. Óvíst er hvort birkikembu- og birkiþélufaraldrar verða hérlendis af slíkri stærðargráðu en erlendar rannsóknir hafa sýnt að tiltölulega lítil árleg skerðing á laufmassa birkis geti haft veruleg langtímaáhrif á vöxt.  

Óljóst er hvernig þessar nýju meindýrategundir bárust til landsins en vegna einangrunar er Ísland sérstak­lega viðkvæmt fyrir nýjum skaðvöldum. Því er mikilvægt fyrir alla að kynna sér hvað skuli varast við inn­flutning og ferðalög á milli landa, til að minnka líkurnar á að nýir skaðvaldar berist með. Fyrir áhugasama er bent á skaðvaldavef Skógræktarinnar, skogur.is/skadvaldar, þar sem er meðal annars farið yfir hvað þarf að varast í þessum efnum.