Áhrif greniskógræktar á kolefnisbúskap graslendis á Reykjum í Ölfusi
Narfi Hjartarson, nemi LbhÍ

Á Íslandi er skógrækt farin að láta til sín taka sem landnýtingarkostur, og er baráttan gegn hamfarahlýnun einn af stærstu hvötunum til nýskógræktar í dag. Sannreynt er að sé rýru landi breytt í skóg, binst mikið magn kolefnis (C) bæði í lífmassa trjáa og í jarðvegi (Arnór Snorrason o.fl. 2000; Bjarnadóttir o.fl. 2009; Owona, 2019; Nave o.fl. 2013). Því er ljóst að skógleysi og gnægð rýrlendis mun veita okkur stórkostleg tækifæri til kolefnisbindingar með nýskógrækt (Þorbergur Hjalti Jónsson og Úlfur Óskarsson, 1996). En breyting á landnýtingu getur haft áhrif á stöðugleika C-forða jarðvegs, og jafnvel valdið því að jarðvegur fari að losa C (Don, A., Schumacher, J. & Freibauer, 2011; Poeplau o.fl. 2011; Powers, Corre, Twine & Veldkamp, 2011). Almennt má segja að eftir því sem C-forði vistkerfa er meiri fyrir skógvæðingu má frekar búast við (smávægilegu) tapi á C í jarðvegi, í kjölfar skógvæðingar (Bárcena o.fl., 2014, Guo & Gifford, 2002, Paul o.fl., 2002, Shi o.fl., 2013). Vegna þessa hafa sumir gagnrýnt ræktun loftslagsskóga á graslendi (Anna G. Þórhallsdóttir, 2019), því þau geta verið afar rík af jarðvegskolefni og eru fær um að binda talsvert magn árlega með örri umsetningu fínróta og rótarseyti í jarðveginn (Klumpp og Fornara, 2018). Graslendi veita okkur einnig aðra vistþjónustu en C-bindingu, t.d. vatnsmiðlun, húsdýrabeit og líffræðilega fjölbreytni (René o.fl., 2022), og eru okkur þ.a.l. afar verðmæt.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að margir þættir ráða stefnu jarðvegskolefnis í kjölfar skógvæðingar, t.d. tegundasamsetning og aldur skógar, loftslag, jarðvegseiginleikar og fyrri landnýting (Jandl o.fl., 2007, Jobbágy & Jackson, 2000, Guo og Gifford 2002). Heimildir sýna að stundum verður tap á C í efsta 10 cm lagi steinefnajarðvegs (Davis og Condron, 2002, Berthrong o.fl. 2012 t.d.). Bárcena o.fl. (2014) sáu að skógvæðingu graslendis í N-Evrópu fylgdi ögn neikvæð breyting á C í jarðvegi, en sú breyting var ekki marktækt frábrugðin upprunalegum C-forða. Verði af C-tapi er C% að jafnaði komið aftur í fyrra horf aðeins 20-30 árum eftir skógvæðingu (Davis & Condron, 2002, Berthrong o.fl. 2012, Bárcena o.fl., 2014). Eftir því sem aldri skógar vindur fram hækkar hlutfall ofan- og neðanjarðarlífmassa (Peichl o.fl., 2012), þ.e. binding í sjálfum trjánum verður stærsti hluti kolefnisforðans. Með tíma verður líka aukning á C-forða sóps á skógarbotni, sérstaklega í barrskógum (Owona, 2019).

Samanburðarsvæði þessa verkefnis voru bæði staðsett á Reykjum í Ölfusi, annars vegar náttúrulegt gamalt graslendi og hins vegar ógrisjaður sitkagrenireitur gróðursettur á árunum 1966-1967 í náttúrulegt graslendi. Samanburður á kolefnisforða í efsta 10 cm lagi steinefnajarðvegs og heildarkolefnisforða vistkerfanna var megináhersla verkefnisins, en einnig var rýnt í aðra mikilvæga jarðvegsþætti (rúmþyngd, N%, C/N-hlutfall og sýrustig). Að meðaltali var C-forði í jarðvegi 32,7 tC/ha í graslendi og 44,9 tC/ha í skógi, skógarjarðvegur hafði marktækt meiri C-forða (P=0,001). Af þessu má áætla að árleg meðalbinding C í jarðvegi 57 árum eftir skógvæðingu þessa tiltekna graslendis sé um 0,21 t/ha. Munur á heildarkolefnisforða (C í ofan- og neðanjarðarlífmassa, sópi og jarðvegi) var mikill; í skógi var forðinn 178 tC/ha að meðaltali en aðeins 40 tC/ha í graslendinu. Sem þýðir að árleg binding C í skóginum er að meðaltali um 2,38 t/ha. Ljóst er að í þessu tilfelli eru langtímaáhrif skógarins á C-forða í jarðvegi jákvæð; langmest var aukning C í sjálfum viðarvexti trjánna (ofanjarðarvöxtur, fínrætur og rótarhnyðja), eða samanlagt um 129 tC/ha að meðaltali.

Nánar