Brynja Hrafnkelsdóttir, Rannsóknasviði Skógræktarinnar, Mógilsá

Loftslagsbreytingar hafa nú þegar haft mikil áhrif á útbreiðslu og skaðsemi skaðvalda sem lifa á trjám og örðum gróðri víða um heim. Á undanförnum áratugum hefur borið á auknum skemmdum af völdum skaðvalda í landbúnaði og skógrækt. Þar sem skordýr eru með misheitt blóð er hitastig sá umhverfisþáttur sem hefur hvað mest áhrif á þau. Þetta gerir að verkum að þau bregðast hratt við breytingu á hitastigi og hefur það bein áhrif á mikilvæga þætti eins og útbreiðslu, lifun, vaxtarhraða, fjölda afkvæma og kynslóða. Loftslagsbreytingar hafa líka bein áhrif á ýmsa sjúkdóma sem lifa á trjám og getu þeirra til að fjölga sér. Auk þess hefur hitastig óbein áhrif á samspil skaðvalda við náttúrulega óvini og fæðuplöntur þeirra.

Á Íslandi hefur landnám skógarmeindýra farið vaxandi eftir að hlýna fór um 1990. Nú hafa um það bil 30 tegundir skógarmeindýra numið hér land frá þeim tíma og nærri þriðjungur þeirra eru tegundir sem geta valdið miklu tjóni. Dæmi um þetta eru birkikemba og birkiþéla sem lifa á birki og asparglytta sem hefur nú þegar haft mikil áhrif á víði hérlendis. Hlýnandi veðurfar hefur líka áhrif á skaðvalda sem hafa verið hér í lengri tíma. Sem dæmi má nefna hafa faraldrar sitkalúsar og ertuyglu breyst á undanförnum árum.

Það er því líklegt að skaðvaldar í íslenskum skógum muni aukast verulega og hafa mikil áhrif á vistkerfi, ef spár um hlýnun ganga eftir.

Meira