Hér fjalla Lárus Heiðarsson hjá Skógræktinni og Hörður Guðmundsson hjá Ilmi-Lífkol um lífkolagerð og ávinninginn af nýtingu þeirra í jarðrækt.

Lífkol úr íslenskum grisjunarviði gætu nýst vel til að binda kolefni til langframa í jarðvegi ræktarlanda og um leið auka gæði jarðvegsins og þar með uppskeru. Möguleikar á þessu eru kannaðir í rannsóknarverkefni sem Skógræktin vinnur nú að í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri.
Frumkvæðið að rannsókninni kom frá fyrirtækinu Tandrabrettum á Reyðarfirði sem meðal annars framleiðir vörubretti en hefur einnig verið að hasla sér völl í úrvinnslu úr timbri, meðal annars íslenskum grisjunarviði.
Hugmyndin er sú að kanna hvort nota megi viðarkol í íslenskum landbúnaði til að draga úr þörfinni fyrir innfluttan tilbúinn áburð í jarðrækt. Viðarkol hafa verið notuð í þessu skyni öldum saman. Frumbyggjar Amason-svæðisins í Suður-Ameríku blönduðu saman lífrænum efnum og viðarkolum til að auðga jarðveg sinn og á síðari árum hafa vísindamenn farið að skoða betur hvort ekki mætti fara að dæmi þeirra. Kolað timbur rotnar ekki eins og óbrunninn viður heldur geymist til langframa í jarðveginum en hefur um leið örvandi áhrif á umsetningu næringarefna og raka í jarðveginum. Með því að hita timbur í súrefnislausu umhverfi verða til gös sem safna má saman og nota sem orkugjafa en eftir verða kolefnisrík viðarkol.

Þetta gefur færi á margþættum kolefnisávinningi. Kolefni sem trén bundu með ljóstillífun læsist þarna í formi viðarkola í stað þess að losna út í andrúmsloftið. Í jarðveginum hafa kolin þau áhrif að minni þörf er fyrir innfluttan tilbúinn áburð sem sömuleiðis sparar kolefnislosun sem hlýst af framleiðslu og flutningi áburðarins. Aukinn vöxtur á ræktarlandinu leiðir líka af sér kolefnisbindingu og eftir því sem uppskera er meiri er kolefnisspor ræktunarinnar minna. Til viðbótar er möguleikinn að fá sjálfbæran orkugjafa úr kolagerðinn. Af öllu þessu er ljóst að til mikils er að vinna. Jafnvel er talað um að það gæti verið jákvæð loftslagsaðgerð að greiða bændum styrki fyrir að fella lífkol niður í jarðveg á ræktarlöndum sínum til að binda kolefni til langframa.

Nánar