Í tengslum við þemadag Nordgen sem var liður í Fagráðstefnu skógræktar á Akureyri 2018 var útbúið myndband um starfsemi skógasviðs Nordgen. Meðal annars var sagt þar frá ræktun lerkiblendingsins Hryms sem fram fer í Fræhöll Skógræktarinnar á Vöglum Fnjóskadal.

NordGen er sameiginleg stofnun Norðurlandaþjóðanna um erfðaauðlindir og innan hennar er svið sem fjallar um erfðaauðlindir trjáa og skóga. Þetta skógasvið Nordgen heldur þemadag tvisvar á ári og skiptast aðildarþjóðirnar á að vera gestgjafar. Fyrri dagur Fagráðstefnu skógræktar 2018 var slíkur þemadagur og fór fram í Hofi á Akureyri. Þar var samankominn góður hópur vísindafólks á sviði skógerfðafræði og meðal þess sem var á dagskránni var skoðunarferð í Vaglaskóg þar sem fram fer stýrð víxlun á úrvalstrjám síberíulerkis og Evrópulerkis.

Tekin voru viðtöl við þátttakendur í þemadegi Nordgen á Akureyri og Vöglum og afraksturinn er áðurnefnt myndband. Þar má fá dálitla hugmynd um almennt hlutverk og starfsemi skógasviðs Nordgen en einnig segir Árni Bragason landgræðslustjóri frá því hvernig þetta samstarf gagnast Íslendingum og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir frá ræktun Hryms í stóra gróðurhúsinu í Vaglaskógi sem ýmist er kallað Fræhúsið eða Fræhöllin.