Víða eru stórkostleg tækifæri til að breiða út birkiskóglendi. Sums staðar nægir að girða land af og leyfa birkinu að sjá um sig sjálft. En flýta má fyrir útbreiðslunni með því að hlúa að landinu og gróðursetja birkið í skika hér og þar. Þá verða fljótt til fræbankar því birkiplöntur byrja snemma að sá sig út, aðeins nokkrum árum eftir gróðursetningu. Fyrir landnám uxu birkiskógar á gosbeltinu sem drógu mjög úr áhrifum öskugosa á gróðurhulu landsins. Ósjálfbær landnýting varð til þess að birkið hvarf. Eftir stóð lággróður sem kafnaði auðveldlega þegar öskufall varð vegna eldsumbrota. Þá hófst uppblástur og jarðvegseyðing. En Eyjafjallajökulsgosið 2010 skemmdi ekki birkið á Þórsmörk. Þvert á móti komu næringarefni með öskunni og hún nýttist í skóginum í stað þess að fjúka til og frá. Birkiskógurinn hlífði landinu. Leyfum landinu að klæðast skógi á ný.
#birki #birkiskógur #skógrækt #landgræðsla