Á jörðinni Víðifelli í Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu býr Álfhildur Jónsdóttir skógarbóndi. Hún hefur langa sögu að segja af skógrækt þar á bæ. Hér gefur hún okkur glefsur af þessari sögu og við finnum eldmóðinn og áhugann sem enn brennur innra með henni. Skógræktarsagan í Víðifelli hófst fyrir miðja síðustu öld þegar amma Álfhildar og afi hófu að gróðursetja tré í garðinum við bæinn. Framan af áttu sumar tegundir nokkuð erfitt uppdráttar, meðal annars vegna snjóþyngsla. Í skógi Álfhildar er að finna falleg hengibirkitré, lífvið, hegg og fleira og fleira en auðvitað líka fallegt Fnjóskadalsbirki, til dæmis tré sem Álfhildur man að Einar Sæmundsen, þáverandi skógarvörður á Vöglum kom með mannhæðarhátt og er nú mikil prýði í skóginum. En sjón er sögu ríkari.