Tilraun með samspil nokkurra trjátegunda ásamt lúpínu á sunnlenskri eyðimörk gefur vonir um betri þekkingu og aðferðir til skóggræðslu á landi sem breyst hefur úr birkiskógi í auðn. Út er komið nýtt myndband um tilraunina sem gert hefur verið fyrir Skógræktina. Fleiri ný myndbönd er líka að finna á myndbandavef Skógræktarinnar.

Í landi Skarfaness í Landsveit, skammt frá Heklu og Búrfelli, er uppblásið svæði þar sem áður stóð vöxtulegur birkiskógur um þúsundir ára. Hart var sótt í skóginn eftir eldiviði og skógurinn gat ekki endurnýjast vegna ásóknar manns og búpenings. Á endanum tóku eyðingaröflin völdin og landið breyttist í sandorpna auðn á ofanverðri nítjándu öld.

Í nýju myndbandi sem Kvikland hefur gert fyrir Skógræktina lýsa dr Dennis Riege og dr Aðalsteinn Sigurgeirsson tilraun sem lögð hefur verið út í Skarfanesi til að afla betri þekkingar á aðferðum við skóggræðslu á slíku landi. Fimm trjátegundir í mismunandi samsetningum eru notaðar auk lúpínu sem bindur nitur í jarðveginum. Skoðað er samspil þessara tegunda eftir því hverjar þeirra eru gróðursettar saman. Sömuleiðis eru skoðað hvernig ná megi sem mestri kolefnisbindingu með skógrækt á svona svæðum. Bráðabirgðaniðurstöður gefa vísbendingar um að tilraunin muni færa okkur betri vitneskju um hvernig ná megi góðum árangri við skóggræðslu á auðnum.

Myndbandið er tæpar 7 mínútur að lengd og er á ensku en með íslenskum texta. Hlynur Gauti Sigurðsson sá um myndatöku og Kolbrún Guðmundsdóttur um klippingu ásamt Hlyni. Framleiðandi er Kvikland ehf.

Fleiri ný myndbönd

Á myndbandavef Skógræktarinnar er að finna fjölda myndbanda um ýmis efni sem snerta skóga og skógrækt. Af nýjustu myndböndunum má nefna, auk þess sem að ofan greinir, myndband um alíslenska baðtunnu frá fyrirtækinu Skógarafurðum í Fljótsdal, framleiðslu á svokölluðum viðarperlum eða viðarkögglum hjá fyrirtækinu Tandrabretti á Eskifirði, og í þriðja lagi myndband þar sem Aðalsteinn Sigurgeirsson sýnir námsfólki skóggræðslu í heimsókn á Hafnarsand í Ölfusi.

Texti: Pétur Halldórsson