Eins og íbúar sunnanlands hafa tekið eftir eru haustlitir á trjágróðri heldur brúnleitari en gengur og gerist. Sérstaklega er þetta áberandi í Rangár- og V-Skaftafellssýslum. Eru þessar skemmdir sérstaklega áberandi á suðurhlið runna og trjáa og hafa margir kennt rokinu um. Ekki telja sérfræðingar að vindurinn einn og sér skemmi laufin, heldur að um sé að ræða skemmdir af völdum saltsins sem stormurinn 1. september bar með sér. Ekki er ljóst hversu mikil áhrif þessar saltskemmdir munu hafa á haustþroska trjágróðurs, en ljóst er að þetta mun a.m.k. seinka þroska eitthvað. Mikil hlýindi undanfarna daga geta þó bætt úr skák. Mikill munur er á skemmdum milli trjátegunda auk þess að munur er á skemmdum milli kvæma og klóna einstakra tegunda. Þær tegundir sem upprunnar eru frá strandsvæðum s.s. sitkagreni, jörfavíðir og hafþyrnir virðast ekki hafa skemmst, en birki, reyniviður, lerki og ýmsar aðrar tegundir eru mjög brúnleitar að sjá.