Í þessari rúmlega tvítugu TTS-herfingu sjást varla nokkur ummerki. Hér var áður rýr lyngmói. Mynd: Þ…
Í þessari rúmlega tvítugu TTS-herfingu sjást varla nokkur ummerki. Hér var áður rýr lyngmói. Mynd: Þröstur Eysteinsson
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri skrifar

TTS-herfing er væg aðferð við jarðvinnslu til skógræktar miðað við aðrar aðferðir sem völ er á. Sárin gróa fljótt og jarðvinnslan eykur lífslíkur trjánna, flýtir fyrir vexti þeirra og þar með þeim árangri sem vænst er af viðkomandi skógræktarverkefni. Ljósmyndir af skógræktarsvæðum sem unnin hafa verið með TTS-herfi sýna að ummerkin eru fljót að hverfa.

Upp hefur komið nokkur umræða um jarðvinnslu sem gjarnan er stunduð í skógrækt og gætir þar stundum nokkurs misskilnings. Í þeirri umræðu er ýmsu haldið fram sem ekki stenst nánari skoðun. Því er rétt að segja frá tilgangi og afleiðingum jarðvinnslu.

Tilgangurinn með jarðvinnslu er einkum þríþættur; 1) að skapa gróðursetningarset þar sem samkeppni annars gróðurs við ungar trjáplöntur er minnkuð, 2) að auka sumarhita jarðvegs og 3) að auðvelda gróðursetningu. Allt eykur þetta lifun og vöxt trjánna og minnkar kostnað við skógrækt. Afföll eru kostnaðarsöm. Kostnaður við það að 20% nýgróðursettra plantna drepist er um 100.000 krónur á hvern hektara lands. Því er mjög mikilvægt að gera það sem hægt er til að draga úr þeim afföllum. Að tré hefji vöxt tiltölulega fljótt og vel er einnig mikilvægt, m.a. svo þau hefji kolefnisbindingu sem fyrst.

Væg jarðvinnsla

Það jarðvinnslutæki sem mest er notað núna er svo kallað TTS-herfi. Á því eru tveir gróftenntir diskar sem velta við gróðurhulunni en rista ekki djúpt. Það rífur frekar en að skera og skapar rásir sem eru svolítið óreglulegar, ólíkt plægingu sem sker gróðurhuluna og ristir dýpra. Útkoman er sú að þegar velturnar gróa líkjast þær þúfum en ekki plógstrengjum. Þótt TTS-herfing líti groddalega út í fyrstu er hún í raun vægari jarðvinnsla en flestar aðrar, er fljótari að gróa og myndar að lokum land sem er óþekkjanlegt frá íslensku þýfi. TTS-herfing þurrkar ekki land og leiðir til mun minni CO2-losunar en jarðvinnsla sem ristir dýpra. Þar sem förin gróa fljótt varir CO2-losun stutt, enda er markmiðið að skapa góðar aðstæður fyrir ungar trjáplöntur á fyrstu árum þeirra en ekki að skapa varanleg sár.

Skógrækt mest á rofnu landi

Stundum er gagnrýnt að verið sé að gróðursetja í „algróið land“ sem útheimti jarðvinnslu á annað borð. Þar býr að baki annars vegar sú hugsun að eini tilgangur skógræktar sé að græða upp örfoka land og hins vegar að hið algróna land sé í einhvers konar „ósnortnu“ ástandi. Hvort tveggja er fjarri lagi. Tilgangur með skógrækt er margháttaður, stundum uppgræðsla, stundum timburframleiðsla, stundum endurheimt vistkerfa og búsvæða, stundum útivist, stundum skjól og á seinni árum ekki síst að binda CO2 úr andrúmsloftinu til að stemma stigu við hraðfara loftslagsbreytingum. Flestum þessum markmiðum er betur hægt að ná á landi þar sem enn er mold til staðar en þar sem hún er fokin burt. Þær gróðurgerðir sem mest eru teknar til skógræktar eru rofið land, mólendi og graslendi. Allar eru þær mótaðar af upphaflegri skógareyðingu og aldalangri beit. Þær eru langt frá því að vera í upprunalegu eða ósnortnu ástandi.

Ummerkin hverfa fljótt

Auðvelt er að taka myndir af nýlega herfuðu landi og kalla það lýti. Jarðvinnsla í skógrækt gerir þó mikið gagn og aðferðirnar sem nú eru notaðar valda ekki varanlegum skemmdum; rásirnar eru fljótar að gróa. Herfing eða tæting eru mun ákjósanlegri jarðvinnsluaðferðir en t.d. plæging eða úðun illgresiseiturs. Skógræktin mun því halda áfram að mæla með jarðvinnslu og fylgjast áfram með þróun þeirrar tækni svo ávallt séu notaðar bestu aðferðir sem völ er á.