Annað tölublað ársins af Skógræktarritinu, riti Skógræktarfélags Íslands, er nýkomið út. Þar er meðal annars fjallað um flokkunarkerfi fyrir jólatré, áhrif loftslagsbreytinga á byggðamynstur og skipulag, Þröstur Eysteinsson skrifar hugleiðingu um mótun vistkerfa og rætt er við skógræktarfrumkvöðulinn Óskar Þór Sigurðsson.
Þessa dagana unnið að því að lokafella um helminginn af Jónsskógi á Hallormsstað, 65 ára gömlum reit með síberíulerki af kvæminu Hakaskoja. Viðurinn verður flettur í þykka planka sem notaðir verða í burðarvirki ásatrúarhofs í Öskjuhlíð í Reykjavík. Mælingar sýna að vöxtur í svo gömlum lerkiskógum sé orðinn afar hægur og því orðið hagkvæmt að fella þá. Ræktunarlota lerkis á Íslandi virðist því vera 60 ár en ekki 80 eins og áður hefur verið ætlað.
Gróðursetningu er nú lokið á tveimur þeirra þriggja jarða Skógræktar ríkisins þar sem samið var um kolefnisbindingu við Landsvirkjun. Í landi Laxaborgar í Haukadal hefur verið sett niður í 22 hektara og á Belgsá í Fnjóskadal 38,5 hektara. Gróðursetning er einnig komin vel af stað í Skarfanesi á Landi þar sem trjáplöntur eru komnar í tæpa 20 hektara. Landsvirkjun á kolefnisbindingu þessara skóga í fimmtíu ár samkvæmt samningunum.
„Frá lofti í við - áhrif skóga og skógræktar á gróðurhúsalofttegundir“ er yfirskrift erindis sem Arnór Snorrason, skógfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, flytur mánudaginn 23. nóvember á fræðslufundi Skógræktarfélags Reykjavíkur og Garðyrkjufélags Íslands. Fundurinn verður í Sal Garðyrkjufélagsins, Síðumúla 1, Reykjavík, og hefst kl. 19.30.
Skógfræðingarnir Hrefna Jóhannesdóttir og Johan Holst hafa nú tekið við skógræktarbúinu á Silfrastöðum í Skagafirði þar sem fjölskylda Hrefnu hefur sett niður meira en 1,1 milljón trjáplantna á undanförnum áratugum. Rætt var við þau í þættinum Að norðan á N4 um verkefnin í skóginum, gildi skógræktar og þá möguleika sem felast í skógrækt hérlendis.