Alþjóðabankinn styður við verkefni sem stuðla að betri landnytjum í heiminum, meðal annars með því að flétta skógrækt við aðra landnýtingu. Aðstoðarforstjóri Alþjóðabankans telur mikla möguleika vera á landnýtingarsviðinu til að draga úr útblæstri koltvísýrings, meðal annars með skógrækt og loftslagsvænum aðferðum í landbúnaði.
Lennart Ackzell hjá sænsku bændasamtökunum segir að lifandi jólatré séu miklu betri fyrir umhverfið en gervitré, sérstaklega ef fólk kaupir tré úr nágrenni sínu. Með þessum skilaboðum óskar Skógrækt ríkisins öllum Íslendingum gleði og friðar á jólum og farsældar á komandi ári um leið og þakkað er fyrir skógræktarárið sem er að líða.
Á Krókeyri, innst í Innbænum á Akureyri suður undir flugvellinum, stendur myndarlegt tvílyft timburhús sem í daglegu tali er kallað Gamla-Gróðarstöðin. Húsið og skógurinn í kring er sögulegur minnisvarði fyrir íslenska skógrækt og garðrækt. Gaman er að skoða myndir sem teknar eru af þessu húsi með aldar millibili.
Annað tölublað Skógræktarritsins 2014 hefur verið að berast áskrifendum síðustu daga og þar kennir að venju ýmissa grasa - eða trjáa. Tvær greinar í ritinu snerta ræktun jólatrjáa. Annars vegar fjallar Else Møller skógfræðingur um mögulega inngöngu Íslendinga í samtök jólatrjáaframleiðenda í Evrópu og Helgi Þórsson skógarbóndi skrifar ítarlega grein um reynsluna af jólatrjáarækt á Íslandi.
Í nýútkomnu tölublaði tímaritsins Við skógareigendur fjallar Rakel Jónsdóttir skógfræðingur um gæðapróf á skógarplöntum og Úlfur Óskarsson, lektor við LbhÍ, veltir vöngum um haustgróðursetningu. Í blaðinu er viðtal við Eddu Björnsdóttur, fyrrverandi formann Landssamtaka skógarbænda og einnig rætt við skógarbændurna á Brennigerði í Skagafirði svo eitthvað sé nefnt.