Gæðapróf á skógarplöntum, haustgróðursetningar og margt fleira efni

Út er komið annað tölublað ársins 2014 af tímariti Landssamtaka skógareigenda, Við skógareigendur.

Í blaðinu  fjallar Rakel Jónsdóttir skógfræðingur um gæðapróf á skógarplöntum. Hún lýsir þeim gæðaprófunum sem gerðar eru í svokölluðu RGC-borði Skógræktar ríkisins í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri. Þar eru skógarplöntur ræktaðar í 3 vikur við bestu aðstæður og svo er metinn bæði rótarvöxtur og yfirvöxtur. Samhliða eru ræktaðar plöntur í bökkum úr sama plöntuholli til samanburðar og byggingarfræðilegir þættir plantnanna sömuleiðis metnir. Þessar prófanir eru liður í því að stuðla að sem mestum gæðum þeirra skógarplantna sem skógarbændum eru afhentar. Fram kemur í grein Rakelar að þróa mætti gæðaprófin frekar og rannsaka m.a. frostþol plantna til að minnka afföll vegna vetrargeymslu en það krefst meiri vinnu og kostnaðar.

Úlfur Óskarsson, lektor við LbhÍ, skrifar grein sem hann kallar Vangaveltur um haustgróðursetningu. Þar eru einmitt líka rædd vandamál við vetrargeymslu skógarplantna og Úlfur reifar þá hugmynd að gróðursetja í meiri mæli seinni hluta sumars þegar jarðvegur er tiltölulega hlýr og oft rakur. Þá geti rætur plantnanna vaxið strax út í jarðveginn og þær sloppið við að vera geymdar í bökkum í gróðrarstöð heilan vetur. Í ljósi vandamála sem komið hafi upp við vetrargeymslu hérlendis telur Úlfur að huga ætti að því betur en gert hefur verið að gróðursetja skógarplöntur strax eftir að uppeldi þeirra lýkur. Þannig megi bæta árangur og draga úr kostnaði.

Í blaðinu er viðtal við Eddu Björnsdóttur, fyrrverandi formann Landssamtaka skógarbænda, sem er vel kunnug íslensku skógræktarfólki. Edda var sæmd gullmerki Landssamtaka skógareigenda á aðalfundi þeirra í Miðgarði í Skagafirði á liðnu hausti. Hún var einn stofnenda samtakanna og sat í stjórn þeirra frá fyrstu tíð 1997 fram til aðalfundar 2013. Edda býr ásamt manni sínum, Hlyni Halldórssyni, í Miðhúsum á Héraði. Hún var meðal þeirra sauðfjárbænda á Héraði sem urðu að skera niður fé sitt vegna riðu um 1980 og höfðu frumkvæði að því starfi sem varð til þess að starfsemi Héraðsskóga komst á fót. Edda ræðir í viðtalinu um sauðfjárbeit í skógi, viðarnytjar þeirra hjóna og fleira og fleira.

Af mörgu forvitnilegu efni í þessu nýja tölublaði af Við skógareigendur er vert að nefna líka grein sem segir frá skógrækt hjónanna Álfs Ketilssonar og Margrétar Stefánsdóttur, skógarbænda í Brennigerði í Skagafirði. Þau hafa ræktað skóg í Brennigerði frá árinu 1971 og náð sér í fjölþætta reynslu af bæði skjólbeltarækt og skógrækt til nytja og útivistar. Ýmsar tegundir hafa þau reynt og ala sjálf upp skógarplöntur í gróðurhúsi. Álfur og Margrét hafa upplifað miklar breytingar á landi sínu, sívaxandi sprettu aðalbláberja, útbreiðslu hrútaberjalyngs og einis, vaxandi fuglalíf, meðal annars mófugla, og rjúpan leiti í skjólbeltin. 

Margt er ónefnt af efni þessa skemmtilega blaðs, grisjunarmál, félagsmál, skógarafurðir aðrar en timbur, skoðunarferð til Svíþjóðar, Grænni skógar og fleira. Hægt er að nálgast blaðið hjá Samtökum skógareigenda en nú er líka hægt að lesa það á vef samtakanna. Ritstjóri blaðsins er Anna Guðmundsdóttir, skógarbóndi í  Reykhúsum Eyjafjarðarsveit.

Texti: Pétur Halldórsson