Í mörg horn er að líta hjá skógræktarráðgjöfum Skógræktarinnar á vorin og í byrjun sumars. Ráðgjafarnir hafa verið á þönum undanfarnar vikur að sinna ýmsum verkum, meðal annars sem snerta jarðvinnslu og annan undirbúning skógræktar en líka úttektum á gróðursetningum og fleiri þáttum. Hér eru svipmyndir frá Tjörnesi og úr Kelduhverfi.
Þrír nýir skógræktarráðgjafar eru nú komnir að fullu til starfa hjá Skógræktinni og sömuleiðis þrír verkefnisstjórar. Auglýst var eftir fólki í þessar stöður á vordögum.
Íslensk skógarúttekt var til umfjöllunar í kvöldfréttatíma Sjónvarpsins laugardaginn 25. júní og þar var rætt við Björn Traustason, sérfræðing á rannsóknasviði Skógræktarinnar, sem er meðal þeirra sem nú fara um landið á vegum stofnunarinnar til úttektar á mæliflötum í skógum. Björn segir að kolefnisbinding í skógunum hafi aukist mikið undanfarin ár.
Sænski gróðursetningarverktakinn William Kristiansson sem starfar fyrir Gone West setti í síðustu viku nýtt Íslandsmet í gróðursetningu trjáplantna þegar hann setti niður 17.732 birkiplöntur í Hekluskóga á einum sólarhring.
„Staðvinnustofur þátttakenda í Loftslagsvænum landbúnaði“ voru haldnar á dögunum, bæði í Engihlíð í Vopnafirði og Butru í Fljótshlíð. Þátttakendur á Norður- og Austurlandi, ásamt ráðunautum RML, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, komu saman í Engihlíð og skiptust þar á skoðunum, ásamt því að bændur á bænum greindu frá sínu mikla starfi í landbúnaði, landgræðslu og skógrækt.