Björn Traustason útskýrir tilganginn með reglubundnum mælingum á um 300 mælireitum um allt land. Skj…
Björn Traustason útskýrir tilganginn með reglubundnum mælingum á um 300 mælireitum um allt land. Skjámynd úr frétt Ríkisútvarpsins.

Íslensk skógarúttekt var til umfjöllunar í kvöldfréttatíma Sjónvarpsins laugardaginn 25. júní og þar var rætt við Björn Traustason, sérfræðing á rannsóknasviði Skógræktarinnar, sem er meðal þeirra sem nú fara um landið á vegum stofnunarinnar til úttektar á mæliflötum í skógum. Björn segir að kolefnisbinding í skógunum hafi aukist mikið undanfarin ár.

Jannick Elshner, meistaranemi í náttúruvísindum við HÍ, er sumarstarfsmaður hjá Skógræktinni og aðstoðar meðal annars við skógmælingarnar. Hann hefur hér stillt upp mælistöng. Skjámynd úr frétt Ríkisútvarpsins.Amanda Guðrún Bjarnadóttir fréttamaður Ræddi við Björn á mælireit í eyfirskum skógi og fram kemur að tilgangur mælinga Íslenskrar skógarúttektar sé að mæla kolefnisbindingu íslenskra skóga. Í þessum úttektum er þó ýmislegt fleira metið og mælt, vöxtur og þrif, vistkerfi skógarins og fleira. Formlega hefur verkefnið Íslensk skógarúttekt verið í gangi frá árinu 2005 í þeim tilgangi að safna upplýsingum um skóga og skógrækt á Íslandi. Til grundvallar eru tæplega 300 mælifletir, sem er að finna víða um landið.

„Við sem sagt erum komnir hér til að meta kolefnisinnihald þessara trjáa, og það gerum við með því að mæla hæðina á þeim og þvermál,“ segir Björn Traustason í viðtalinu.

Aðferðafræðin sem unnið er eftir í verkefninu er hluti af alþjóðlegu kerfi og niðurstöður eru bornar fram í skýrslum á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, meðal annars í tengslum við Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna þar sem Íslendingar þurfa að standa skil á losunar- og bindingartölum eins og aðrar þjóðir sem að samningnum standa. Björn segir mælingarnar hafa komið vel út hér á landi.

Þótt loftslagsmálin séu ekki alltaf mjög áþreifanleg er tré sem bindur kolefni í það minnsta mjög áþreifanlegt, eins og Björn bendir á og klappar efnilegri ösp. Skjámynd úr frétt Ríkisútvarpsins„Það er mikill vöxtur og í rauninni meiri vöxtur en við höfum búist við. Þannig að síðustu fimm árin hefur mjög mikið gerst,“ segir Björn. „Málið eins og með þessi loftslagsmál, þau eru náttúrulega oft mjög flókin og geta verið óáþreifanleg en það sem er náttúrulega mjög áþreifanlegt er þetta hérna,“ segir hann, og bendir á trén.

„Þetta tré hérna, sem ég er að fara að mæla hér, hefur verið mælt tvisvar sinnum áður. 2007, 2012 og 2017. Og nú erum við að mæla það í fjórða sinn hérna,“ segir Björn og mælir tréð með sérstökum mælitækjum sem notuð eru við úttektirnar. „Það er alveg búið að vaxa um einhverja rúma tvo metra á fimm árum,“ bætir hann við.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson