Þýska sjónvarpsstöðin ZDF fjallaði nýlega um nýskógrækt á Íslandi í þættinum Plan B. Varpað er ljósi á mikilvægi skógræktar fyrir veðurfar, loftslag og varnir gegn áhrifum eldsumbrota. Einnig er fjallað um degli sem framtíðartré í þýskum skógum og notkun elds í forvarnarskyni gegn gróðureldum í Portúgal.
Skógræktin hefur endurheimt votlendi í Mosfelli í Grímsnesi til mótvægis við land sem tapast við gerð Brúarvirkjunar í Haukadal. Endurbleyting landsins hefur ekki áhrif á skóginn í Mosfelli en áhugavert verður að fylgjast með breytingum á fuglalífi og gróðurfari þegar votlendið nær sér aftur á strik.
Forvarnir eru öflugasta vopnið gegn flutningi skaðvalda á trjám milli landa og heimsálfa. Litlar og dreifðar vísindastofnanir hérlendis rýra möguleika Íslendinga til öflugra rannsókna á þessu sviði en það má vega upp með efldu samstarfi, bæði innanlands og á norrænum vettvangi. Þetta var meðal þess sem fram kom á ráðstefnu NordGen um skógarheilsu í framtíðinni sem haldin var nýverið í Hveragerði.
Meiri kolefnisforði mælist í efsta jarðvegslagi barrskóga en birkiskóga og munurinn er hlutfallslega enn meiri í feyrulaginu þar sem kolefnisforði barrskóganna er 92% meiri en birkiskóga. Botngróður minnkaði meira undir barrskógum en birkiskógum en það hafði ekki teljandi áhrif á kolefnisjöfnuð vistkerfisins því kolefnisforði botngróðurs var langminnstur af þessum þremur hlutum alls kolefnisforðans í skóginum. Þetta eru helstu niðurstöður meistararitgerðar sem Joel C. Owona ver á mánudag við LbhÍ.
Endurmenntun LbhÍ stendur fyrir námskeiði um handverk og efnisnotkun í innviðum á ferðamannastöðum. Námskeiðið er ætlað t.d. verktökum og ráðgjöfum, hönnuðum og umsjónaraðilum ferðamannastaða.