Meiri kolefnisforði mælist í efsta jarðvegslagi barrskóga en birkiskóga og munurinn er hlutfallslega enn meiri í feyrulaginu þar sem kolefnisforði barrskóganna er 92% meiri en birkiskóga. Botngróður minnkaði meira undir barrskógum en birkiskógum en það hafði ekki teljandi áhrif á kolefnisjöfnuð vistkerfisins því kolefnisforði botngróðurs var langminnstur af þessum þremur hlutum alls kolefnisforðans í skóginum. Þetta eru helstu niðurstöður meistararitgerðar sem Joel C. Owona ver á mánudag við LbhÍ.
Endurmenntun LbhÍ stendur fyrir námskeiði um handverk og efnisnotkun í innviðum á ferðamannastöðum. Námskeiðið er ætlað t.d. verktökum og ráðgjöfum, hönnuðum og umsjónaraðilum ferðamannastaða.
Hópur starfsmanna Birtu lífeyrissjóðs gróðursetti á dögunum 1.800 trjáplöntur á Haukadalsheiði í samræmi við þriggja ára samning við Skógræktina um gróðursetningu og skógrækt þar á þremur hekturum lands.
Fjallað verður um aðsteðjandi hættu vegna sjúkdóma og meindýra í skógum á ráðstefnu sem skógasvið norrænu erfðavísindastofnunarinnar NordGen heldur á Hótel Örk Hveragerði 17.-18. september. Um 80 manns eru skráð á ráðstefnuna, meðal annars vísindafólk frá öllum Norðurlöndunum, Lettlandi og Bretlandi.
Hafin er landssöfnun á birkifræi í samstarfi Landgræðslunnar og Hekluskóga við Olís. Söfnunin er liður í verkefni sem snýr að endurheimt birkiskóga, en þeir eru mikilvægur þáttur í uppgræðslu lands og auka kolefnisbindingu þess. Söfnunarpokar eru fáanlegir á Olís-stöðvum á Akureyri, í Álfheimum og Norðlingaholti Reykjavík, í Borgarnesi, á Reyðarfirði, Selfossi, Höfn, Hellu, Fellabæ (Egilsstaðir) og Húsavík. Þessar sömu stöðvar taka við pokunum þegar fólk hefur safnað fræi í þá. Starfstöðvar Landgræðslunnar taka einnig við fræpokum.