Ein er sú stétt manna þótt ekki sé hún stór hérlendis sem hugsar allt árið um jólatré. Það eru jólatrjáabændur. Á fræðsluvef Skógræktar ríkisins um jólatré má finna dagatal jólatrjáabóndans og þar má sjá hvaða verk þarf að vinna í hverjum mánuði ársins. Þar er líka ný þýðing á bandarískri grein um ræktun fjallaþins og korkfjallaþins.
Skogur.is fékk ábendingu um hagleiksmann sem hefði smíðað úr viði eftirlíkingu af L-134 vél úr Willy's-jeppa. Vélin er haganlega gerð og sýnir einstaklega vel hvernig sprengihreyfill vinnur. Smiðurinn handlagni heitir Ken Schweim, bandarískur kennari og sjúkraflutningamaður á eftirlaunum.
Stór hluti fagfólks í skógrækt á Íslandi kom saman á Egilsstöðum dagana 19.-20. janúar af margföldu tilefni. Fagnað var sjötugsafmæli Jóns Loftssonar sem lét af störfum um áramótin og haldin ráðstefna honum til heiðurs en jafnframt hittist starfsfólk Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt á sameiginlegum starfsfmannafundi vegna væntanlegrar sameiningar í nýja stofnun, Skógræktina. Um þetta er ítarleg umfjöllun í Bændablaðinu sem kemur út í dag.
Sjálfboðasamtökin Trees for Life hafa gróðursett eina milljón trjáplantna og girt skóglendi til að bjarga leifum fornra skóga Skotlands frá eyðingu. Stefnt er að því að gróðursetja annað eins á næstu fimm árum. Í Skotlandi eru dæmi um gamla skóga sem yrðu horfnir eftir hálfa öld ef ekkert yrði að gerð. Vegna ofbeitar hjartardýra og fleiri grasbíta kemst nýgræðingur ekki upp til að taka við af gömlu trjánum. Einmitt þannig fór fyrir birkiskógunum á Íslandi.
Rannsóknarmiðstöðin CAR-ES efnir ásamt fleirum til vinnusmiðju 15.-16. mars í Gautaborg um umhverfisstjórnun og lífhagkerfið, „Landscape management and design for food, bioenergy and the bioeconomy: methodology and governance aspects“. Frestur til að skila inn fyrirlestrum er 8. febrúar en skráning til þátttöku stendur til 19. febrúar. Fyrri starfsáætlun CAR-ES rann út um áramótin en nú hefur verið ákveðið að framlengja samstarfið til ársins 2020.