Sprengihreyfill úr afgangstimbri.
Sprengihreyfill úr afgangstimbri.

Skemmtilegt dæmi um viðarnytjar

Viður er makalaust efni. Viðartegundir hafa mjög mismunandi eiginleika, sumar harðar, aðrar mjúkar, liturinn er ólíkur, áferðin, styrkur og sveigjanleiki. Þess vegna er viður svo skemmtilegur til smíða og möguleikarnir óteljandi. Skogur.is fékk ábendingu um hagleiksmann sem hefði smíðað úr viði eftirlíkingu af L-134 vél úr Willy's-jeppa. Vélin er haganlega gerð og sýnir einstaklega vel hvernig sprengihreyfill vinnur. Smiðurinn handlagni heitir Ken Schweim, bandarískur kennari og sjúkraflutningamaður á eftirlaunum.

Vélin er fjögurra strokka flathaus-vél (flathead) og hreyfanlegu hlutirnir eru sveifarás, bullustangir og bullur, kambás, ventlar og tímahjól. Alla hluti vélarinnar smíðaði Ken úr afgangstimbri og notaði blindnagla úr tré þannig að eini efniviðurinn er viður. Við smíðina notaði hann venjuleg handverkfæri en einnig rennibekk sem hann segir að hafi komið að góðum notum. Ofan á vélinni er eftirlíking af kveikjuloki, kveikjuþráðum og kertum, allt úr tré en það er einungis upp á útlitið því ekkert af því vinnur með vélinni enda er hún handsnúin.


Fyrir vélaáhugafólk er gaman að sjá hreyfingar ventlanna sem við fyrstu sýn virðist tilviljunarkennd. Ástæðan er sú að öndun vélarinnar fer um sömu grein í báðar áttir, innsog og útblástur.

Kveikjuröðin er 1-3-4-2 á strokkunum og í myndbandinu sýnir Kim hvernig þetta gengur allt saman fyrir sig.

Fyrir áhugasama má geta þess að Ken hefur skrifað ítarlegar leiðbeiningar um hvernig smíða megi vél sem þessa. Með fylgja ríflega 300 ljósmyndir og teikningar og þetta er fáanlegt bæði rafrænt og prentað. Prentuðu útgáfuna, sem er 105 blaðsíður, má til dæmis panta á ebay.com og þá rafrænu á amazon.com.

Í þessu myndbandi sýnir Ken Schweim hvernig vélin vinnur

Texti: Pétur Halldórsson