Skógarfura og birki í skoskum skógi. Mynd: Trees for Life.
Skógarfura og birki í skoskum skógi. Mynd: Trees for Life.

Endurhæfing skógarvistkerfa í Skotlandi

Skotar eru nágrannar okkar Íslendinga og ekki laust við að við finnum til frændsemi með þeim. Þeir eiga margt sameiginlegt með okkur, hafa lifað um aldir af því sem sjórinn og landið gefur. Meðal annars hafa þeir ofnýtt landið eins og Íslendingar með þeim afleiðingum að nær öllum skógi var eytt. Saga skógareyðingar í hálöndum Skotlands er löng, flókin og jafnvel sveipuð dulúð en þó má enn sjá minjar um það sem eitt sinn var en nú hefur glatast. Rétt eins og á Íslandi er örlítið brot af villtum skógum landsins varðveitt.

Á Íslandi tók ekki nema þúsund ár að eyða nær öllum skógunum en þetta hefur tekið nokkur árþúsund í Skotlandi. Þar hafa líka komið tímabil þegar skógar hafa sótt fram á ný. Skógarþekjan hefur sveiflast með veðurfarssveiflum. Alveg eins og hjá okkur er ómögulegt að segja með fullri vissu til um hvernig villtir skógar Skotlands litu út áður en landið byggðist. Eitt er þó víst. Skógarnir voru miklu stærri en nú, samfelldari og vistkerfi þeirra auðugri með fjölbreyttara jurta- og dýralífi en nú er.


Trees for Life eru samtök sem vinna að mestu í sjálfboðastarfi að því að bjarga síðustu leifum hinna fornu skóga Skotlands. Þar er að finna dæmi um skóga með gömlum trjám sem ekki virðast í hættu við fyrstu sýn. Ekki er þó allt sem sýnist því jafnvægi vistkerfisins hefur verið raskað. Hjartardýr og aðrir grasbítar eru of margir til þess að nýgræðingur komist upp í skóginum og verði ekkert að gert verða þessir gömlu skógar víða horfnir eftir hálfa öld þegar gömlu trén drepast. Sjálfboðaliðarnir vinna nú að því að girða svæði af, gróðursetja inni í gömlu skógunum en einnig á nýjum skóglausum svæðum. Reynt er að setja trén niður með óreglulegum hætti svo að upp vaxi skógar sem virðast sem náttúrlegastir.

Nú þegar hafa samtökin gróðursett eina milljón trjáplantna og stefna að því að rækta annað eins á næstu fimm árum. Markmiðið er að endurvekja villta og fjölbreytta skóga á stórum svæðum þannig að þar geti þrifist fjölbreytilegt lífríki við ýmiss konar aðstæður. Ekki er hugmyndin að reynt verði að rækta upp eitthvað „upprunalegt“. Jafnvel þótt mönnum tækist að komast nákvæmlega að raun um hvernig skógarnir voru á öldum áður væri slík endurgerð ekki í anda náttúrunnar enda er hún sjálf síbreytileg. Skógarvistkerfi taka stöðugum breytingum. Takmarkið er fyrst og fremst að endurvekja undirstöðuþætti skógarins til þess að eðlileg þróun og náttúrlegir ferlar komist í gang á ný. Auk þess er engum vafa undirorpið að tilvist heilbrigðra skóga nærir anda mannsins. Það er líka forsenda fyrir heilbrigðri jörð.

Í myndbandi um starf samtakanna Trees for Life má meðal annars sjá hvernig gamlir skógar í Skotlandi eru að deyja vegna beitar sem kemur í veg fyrir að nýgræðingur geti vaxið upp. Nákvæmlega þannig fór fyrir skógum Íslands. Sauðfjárbeit kom í veg fyrir að teinungar og fræplöntur kæmust á legg. Smám saman drápust gömlu trén úr elli og eftir varð bert land ofurselt roföflum og náttúruhamförum.

Introducing Trees for Life

Texti: Pétur Halldórsson