Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við IKEA á Íslandi, útnefnir beyki, Fagus sylvatica, í Hellisgerði í Hafnarfirði tré ársins 2017 við hátíðlega athöfn laugardaginn 29. júlí kl. 15. 
Sólskógar og Skógræktarfélag Eyfirðinga standa fyrir opnum degi í gróðrarstöðinni í Kjarnaskógi laugardaginn 29. júlí. Tilefnið er að nú í sumar eru 70 ár liðin frá því að byrjað var að rækta Kjarnaskóg og starfsemi gróðrarstöðvar þar hófst.
Trjám verður gert hátt undir höfði á Handverkshátíðinni á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit sem haldin verður í 25. sinn dagana 10.-13. ágúst. Tuttugu og tveir handverksmenn og -konur skiptu á milli sín heilu birkitré og unnu úr því 400 hluti. Sýning á verkunum verður opnuð á sunnudag og verður opin fram yfir Handverkshátíðina.
Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að alþjóðlegur dagur skóga 2018 verði helgaður skógum og sjálfbærum borgum. Þarnæsta ár, 2019, verður sjónum beint að skógum og menntun.
Fyrir nokkru kom út fyrra tölublað ársins af Skógræktarritinu, riti Skógræktarfélags Íslands. Í ritinu er að þessu sinni fjallað um 50 ára afmæli Rannsóknastöðvar skógræktar Mógilsá, Skrúðgarðinn á húsavík, Bolholtsskóga á Rangárvöllum og margt fleira áhugavert.