400 gripir unnir úr einu birkitré

Trjám verður gert hátt undir höfði á Handverkshátíðinni á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit sem haldin verður í 25. sinn dagana 10.-13. ágúst. Tuttugu og tveir handverksmenn og -konur skiptu á milli sín heilu birkitré og unnu úr því 400 hluti. Sýning á verkunum verður opnuð á sunnudag og verður opin fram yfir Handverkshátíðina.

Handverkshátíð hefur löngu sannað tilvist sína sem vettvangur þar sem hittist handverksfólk víðs vegar að af landinu, einstaklingar sem handverkshópar. Hugmyndin að baki hátíðinni í upphafi var einmitt að leiða fólk saman sem deildi þeirri sameiginlegu sýn að efla íslenskt handverk og tryggja að þekking á gömlu íslensku handverki færðist milli kynslóða.
Þetta árið verður hátíðin öðrum þræði hátíð trésins og þar verður framarlega í flokki Svíinn Knut Östgård sem starfað hefur sem heimilisiðnaðarráðunautur í 27 ár, haldið fjöldann allan af námskeiðum, gert fræðslumyndbönd, gefið út bækur og staðið fyrir sýningum og verkefnum sem hafa farið um öll Norðurlöndin. Knut verður einn af sýnendum hátíðarinnar auk þess sem hann heldur námskeið og fyrirlestra.
Knut Östgård er einn af aðstandendum sýningarinnar sem opnuð verður á sunnudag. Þetta er sænsk farandsýning og ber nafnið Ur björk eða Úr birki. Að sýningunni standa 22 handverksmenn og -konur sem skiptu á milli sín heilu birkitré og fengu það hlutverk að nýta allt efnið með frjálsum huga og höndum.  Knut segist hafa lengi dreymt um að vinna verkefni eins og þetta. Nú er það orðið að veruleika og sýningin komin til Íslands og alla leið að Hrafngili í Eyjafjarðarsveit. Það tók hópinn hálft ár að vinna alla þessa muni.

Allt var nýtt af birkitrénu góða. Þetta var 25 metra hátt tré og 30 cm í þvermál. Afraksturinn er 400 hlutir. Verðmæti viðarins margfaldast þegar nytjalist er unnin úr tré og að því er fram kemur í tilkynningu frá Handverkshátíðinni er sýningin Ur björk virkilega falleg og stórbrotin sýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Handverkshátíðar, www.handverkshatid.is