Trjágróður í þéttbýli gerir margvíslegt gagn sem vakin verður athygli á með þema alþjóðlegs dags skó…
Trjágróður í þéttbýli gerir margvíslegt gagn sem vakin verður athygli á með þema alþjóðlegs dags skóga 2018. Trjágróður jafnar hita í borgum, bætir vatnsbúskap, hreinsar ryk og mengunarefni úr andrúmsloftinu, dregur úr hávaða, býr til vistkerfi, bindur koltvísýring og fleira og fleira.

Vakin athygli margvíslegrar þjónustu trjágróðurs í þéttbýli

Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að al­þjóðlegur dagur skóga 2018 verði helgaður skógum og sjálfbærum borgum. Þarnæsta ár, 2019, verður sjónum beint að skógum og menntun.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað á sínum tíma að 21. mars skyldi vera al­þjóð­legur dagur skóga í því skyni að prísa og vekja athygli á hvers konar skóglendi á jörðinni og trjágróðri utan skóga. Skóga hefur sífellt borið meira á góma að undan­förnu í alþjóðlegri umræðu um loftslags­breytingar í tengslum við Parísar­samkomu­lagið og markmiðin sem þar voru sett fram til ársins 2030.

Það er UNFF, skógasvið FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóð­anna, sem ákveður þema alþjóð­lega skógardagsins hverju sinni og nú hefur verið ákveðið að nýta þá auknu athygli sem skógarnir hafa fengið vegna loftslagsumræðunnar til að vekja athygli á gagnsemi trjágróðurs í þéttbýli. Frum­kvæð­ið kom frá CPF, samstarfs­vett­vangi fjórtán alþjóðlegra stofnana og embætta sem sett var á fót að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna til að vinna að ýmsum skógartengdum málefnum. Fulltrúar CPF lögðu til að með því að setja trjágróður í þéttbýli ettur í brennidepil gæfist færi á að vekja athygli á því hvernig skógar gætu lagt gott til markmiðs­ins um sjálfbæra þróun fram til 2030. Þar með yrði ýtt undir að skógargeirinn gæti talað einni röddu til þjóða heimsins jafnvel þótt verkefni þjóða og sam­taka yrðu löguð að þörfum og aðstæðum á hverjum stað.

Yfirskrift alþjóðlegs dags skóga 2018 verður því á ensku „Forests and Sustainable Cities“ sem gæti verið á íslensku „skógar og sjálfbært þéttbýli“. Þá hefur líka verið ákveðin yfirskriftin fyrir þennan dag 2019, á ensku „Forests and Education“ og þá verður sjónum beint að skógum og menntun. Vakin er athygli á þessu svo snemma til þess að undir­búa megi viðburði og verkefni í tengslum við daginn tímanlega.

UNFF býður fram ýmsa aðstoð þeim þjóðum sem vilja fagna alþjóðlegum degi skóga með viðburðum og verkefnum. Meðal annars geta þjóðir nýtt sér fjölbreytt margmiðlunarefni sem UNFF lætur útbúa og laga má að tungumáli hvers lands fyrir sig.

Þema alþjóðlegs dags skóga 2017 var skógur og orka. Skógræktin gaf þá út myndband sem vekur athygli á þeim möguleika að nýta íslenskan trjávið til kyndingar á svæðum þar sem ekki er hitaveita.

Skógur og orka (myndband)

Texti og mynd: Pétur Halldórsson