Skógarbændur á Austurlandi kanna nú möguleika á stofnun afurðastöðvar sem annast myndi sölu á ýmsum nytjavið sem fellur til í fjórðungnum. „Menn hafa legið yfir þessu að undanförnu. Eru nú að fara yfir tölur og reikna sig áfram. Það er ljóst að koma þarf vinnslu og sölu skógarafurða í farveg á næstu árum,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi í samtali við Morgunblaðið í dag.
Þýskur grafískur hönnuður hefur þróað aðferð til að túlka mynstur árhringja í píanótónum. Mismunandi vaxtarhraði trjáa og vaxtarlag gefur mismunandi tónlist. Vægast sagt sérhæfð og nýstárleg skógarafurð!
Landvernd efnir til hádegisfyrirlestrar um þróun göngustíga föstudaginn 3.október kl. 12.15 í stofu 101 í Lögbergi, Háskóla Íslands. Bob Aitken, skoskur landfræðingur og ráðgjafi í umhverfismálum á útivistarsvæðum, veltir upp leiðum til að takast á við stígamál á Íslandi með auknum ferðamannastraumi.
Ekki er enn hægt að meta hversu mikið losnar af koltvísýringi í eldsumbrotunum sem standa yfir norðan Vatnajökuls. Þar að auki er koltvísýringslosun frá eldstöðum aðeins örlítið brot af því sem losnar af mannavöldum í heiminum. Önnur lofttegund sem eldstöðin spúir er mun viðsjárverðari mönnum og náttúru. Það er brennisteinstvíoxíð, SO2, sem getur í versta falli haft þau áhrif að kólni í veðri. Ekki er þó hætta á því nema í meiri háttar sprengigosum. Skógrækt getur dregið verulega úr umhverfisáhrifum vegna eldgosa.
Finnskir skógræktarmenn heimsóttu í gær Stálpastaðaskóg í Skorradal og nutu leiðsagnar Valdimars Reynissonar skógarvarðar um skóginn. Finnarnir gerðu góðan róm að skóginum. Einn úr hópnum gat gefið góð ráð um vinnubrögð við grisjun með grisjunarvél sem einmitt er þar að störfum þessa dagana.