Skógræktin auglýsir eftir umsóknum frá félögum og samtökum um styrki til skógræktar undir merkjum Vorviðar. Styrkirnir eru ætlaðir til skógræktar á vegum almennra félaga og samtaka en ekki fyrirtækja eða stofnana. Umsóknarfrestur er til 1. mars.
Plöntubakkar eru verðmæti og nú er lag að líta í kringum sig, taka til fyrir vorið og skila plöntubökkum sem kunna að hafa orðið eftir hjá skógræktendum vítt og breitt um landið. Ef vel er farið með bakkana og þeim skilað aftur til gróðrarstöðva þannig að þeir nýtist árum saman spörum við plastið sem fer í að framleiða bakkana. Það er allra hagur.
Listakonurnar Elín Elísabet Einarsdóttir og Rán Flygenring útskýra hringrásir og hringrásarhagkerfið á einfaldan og skemmtilegan hátt í nýju myndbandi sem þær hafa búið til ásamt þriðja listamanninum, Sebastian Ziegler. Ef einhver hefur furðað sig á hugtakinu hringrásarhagkerfi og jafnvel fussað yfir því og sveiað ætti þetta skemmtilega myndband að geta varpað á það betra og jákvæðara ljósi. Útgefandi myndbandsins er Austurbrú sem vinnur að símenntun, rannsóknum, atvinnuþróun og markaðssetningu fyrir allt Austurland.
Björn Halldórsson, skógar- og sauðfjárbóndi á Valþjófsstöðum í Núpasveit, stefnir að því að nýta lífrænt vottaða fiskimykju frá seiðaeldisstöð á Kópaskeri í skógrækt og landgræðslu á jörð sinni. Hann segir mikla sóun ef slíku efni er fargað enda mikil næring í því.
Endurmenntun LbhÍ stendur fyrir námskeiði á Héraði 28. febrúar til 2. mars í grisjun og trjáfellingu með keðjusög. Námskeiðið er öllum opið og hentar þeim sem ekkert kunna á keðjusagir og vilja læra á þær. Einnig þeim sem hafa notað keðjusagir en vilja bæta fellingartækni sína eða vilja öðlast meiri þekkingu á meðferð og umhirðu saga. Hámarksfjöldi þátttakenda er 10.