Rán Flygenring stödd í austfirskum lerkiskógi að útskýra hringrás í skógi. Mynd af vef Austurbrúar
Rán Flygenring stödd í austfirskum lerkiskógi að útskýra hringrás í skógi. Mynd af vef Austurbrúar

Listakonurnar Elín Elísabet Einarsdóttir og Rán Flygenring útskýra hringrásir og hringrásarhagkerfið á einfaldan og skemmtilegan hátt í nýju myndbandi sem þær hafa búið til ásamt þriðja listamanninum, Sebastian Ziegler. Ef einhver hefur furðað sig á hugtakinu hringrásarhagkerfi og jafnvel fussað yfir því og sveiað ætti þetta skemmtilega myndband að geta varpað á það betra og jákvæðara ljósi. Skógur er eitt af dæmunum sem tekin eru í myndbandinu um hringrásir.

Útgefandi myndbandsins er Austurbrú sem vinnur að símenntun, rannsóknum, atvinnuþróun og markaðssetningu fyrir allt Austurland. Í  frétt á vef Austurbrúar 21. janúar er vonast til þess að myndbandið fari víða og veki fólk á öllum aldri til umhugsunar um loftslags- og umhverfismál. Það er unnið með styrk frá ráðuneyti umhverfismála og markmiðið að auka vitund fólks um hringrásarhagkerfið þar sem reynt er að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi og viðhalda verðmætum þeirra eins lengi og mögulegt er.

Gott að finna hringrásir í skóginum

Skógur er fyrirmyndardæmi um hringrásir náttúrunnar. Þar fellur til lauf og annað lífrænt efni sem rotnar og nýtist öðrum lífverum en að lokum trjánum sjálfum til næringar og vaxtar. Í myndbandinu er meðal annars farið út í skóg og tekið dæmi um hringrásir þar.

„Við vonum að myndin veki áhuga og skapi umræðu um umhverfismál í landshlutanum,“ segir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir í frétt Austurbrúar, en hún er verkefnastjóri þar á bæ og hefur stýrt þessu verkefni fyrir hönd Austurbrúar. „Ábyrgð mannkyns er mikil þegar kemur að því að takast á við loftlagsbreytingar og þess vegna hafa alþjóðasamtök eins og Sameinuðu þjóðirnar sett sér markmið um sjálfbæra þróun. Áhrifa þeirra gætir svo í þeim stefnum sem við vinnum eftir“, segir hún einnig.

Nánar má fræðast um verkefnið á vef Austurbrúar:

Texti: Pétur Halldórsson